Starfstími skólans er að þessu sinni 19. – 27. júní 2021 að Reykjaskóla í Hrútafirði. 


Kveðja frá skólanefnd

Kæru leiklistarvinir!
Það er okkur sönn ánægja að bjóða ykkur velkomin í Reykjaskóla í sumar þar sem leiklistarskólinn okkar verður settur í tuttugasta og fjórða sinn. Skólahald féll niður vegna Covid-19 síðasta sumar eins og allir vafalaust vita. Við vonum að þetta skólaár verði engu að síður sama uppspretta metnaðar, sköpunar og gleði og verið hefur öll þau ár síðan skólinn var fyrst settur.
Að þessu sinni verða fjögur fjölbreytt námskeið í boði. Við bjóðum velkominn Ólaf Ásgeirsson sem kennir hjá okkur í fyrsta sinn og verður með Leiklist II, sem er framhald af námskeiðinu sem Aðalbjörg Árnadóttir var með í hittifyrra. Einnig bjóðum við velkomna í fyrsta sinn í kennarahópinn, Völu Fannell sem kenna mun Leikstjórn I. Þá fögnum við því að fá Evu Björgu Harðardóttur og Ingvar Guðna Brynjólfsson til okkar með framhald á námskeiðinu Bak við tjöldin sem Eva Björg stýrði 2018 en Ingvar er hinsvegar að kenna við skólann í fyrsta sinn. Sérnámskeið um leikarann sem skapandi listamann verður svo í höndum hins þrautreynda kennara Rúnars Guðbrandssonar.
Við vonum að sem flestir eigi þess kost að nema og njóta.
Hlökkum til að sjá ykkur – með bestu kveðju,
 Hrefna, Dýrleif, Herdís, Hrund og Gísli


 

Leikstjórn I – Grunnnámskeið

Kennari Vala Fannell
Þátttökugjald: 104.500 kr.
Námskeiðið er grunnnámskeið fyrir leikstjóra. Þeir ganga fyrir sem ekki hafa áður sótt Leikstjórn I.

Á námskeiðinu verður fjallað nokkuð almennt um starf leikstjórans, – hvert er hlutverk hans og hvernig leysir hann það?
Hugað verður að undirbúningi leikstjórans, greiningarvinnu og skipulagningu áður en æfingar hefjast, en líka því verki sem fram fer á æfingatímanum með leikurum og öðrum aðstandendum.
Námskeiðið verður því hvoru tveggja fræðilegt og verklegt.
Eftir að skráningu lýkur verða öllum þátttakendum send verk til skoðunar og þau síðan lögð til grundvallar vinnunni á Reykjum. Kennari mun einnig senda þátttakendum verkefni til að íhuga og leysa áður en námskeiðið hefst, þannig að ákveðins undirbúnings verður krafist.
Kennsla fer fram með ýmsum hætti; fyrirlestrar, umræður, verklegar æfingar, einstaklings verkefni, hópverkefni, o.s.frv.

Vala Fannell lærði bæði leiklist og leikstjórn í The Kogan Academy of Dramatic Arts í London frá árunum 2009-2014. Eftir útskrift stofnaði hún sitt eigið fyrirtæki, StepbyStep Productions og framleiddi, leikstýrði og lék undir merkjum þess ásamt því að sinna öðrum verkefnum. Hún tók einning að sér kennslu hjá KADA þar sem hún kenndi bæði leiklist og leikstjórn til BA gráðu í fjögur ár. Hún kom fyrst heim að leikstýra árið 2016 þegar hún setti upp Konung Ljónanna með Leikfélagi Menntaskólans á Akureyri. 2018 fluttist hún aftur til íslands og hóf störf sem leiklistarkennari unglingastigs Leiklistarskóla Leikfélags Akureyrar. Sumarið 2019 vann hún ásamt leikhópi og leikstýrði glænýju verki um líf unglinga, fml – fokk mæ læf, hjá Leikfélagi Akureyrar. Janúar 2020 starfaði hún sem aðstoðarmaður leikstjóra að sýningunni Vorið vaknar hjá LA sem og hún hóf störf hjá Menntaskólanum á Akureyri sem verkefnastjóri sviðslistabrautar þar sem hún byggði upp nýja kjörsviðsbrautar sem hún hóf kennslu við haustið 2020. Síðasta leikstjórnarverkefni Völu var svo fjölskyldursöngleikurinn Benedikt búálfur hjá Leikfélagi Akureyrar sem var frumsýndur í byrjun mars 2021.
Þetta er í fyrsta sinn sem Vala kennir við skólann.


Leiklist II

Kennari er Ólafur Ásgeirsson

Þátttökugjald: 104.500 kr.
Forkröfur:
Námskeiðið er framhaldsnámskeið fyrir leikara og ætlað þeim sem sótt hafa Leiklist I eða sambærileg námskeið. Þeir sem sótt hafa Leiklist I og hafa ekki áður sótt Leiklist II ganga fyrir.
Á þessu námskeiði verður áhersla lögð á senuvinnu og karaktersköpun. Unnið verður með handrit að verki, senur úr verkinu greindar út frá Kerfi Líkamlegra Gerða og unnið með sviðsetningu á þeim. Einnig verða skoðaðar mismunandi leiðir til að nálgast karakter, t.d. aðferðir Michael Chekhov við að byggja upp og líkamna persónur. Unnið verður með karakteropnanir og spuna. Raddvinna, ímyndunarafls- og fókusæfingar verða einnig settar á oddinn, og leitast við að tengja slíka vinnu beint inn í senuvinnuna.

Ólafur Ásgeirsson (f. 1990) útskrifaðist af Leikarabraut Sviðslistadeildar Listaháskóla Íslands árið 2015. Ólafur fór í kjölfarið til New York þar sem hann lærði Michael Chekhov leiklistartækni í The Michael Chekhov Acting Studio og spunatækni við UCB spunaskólann. Ólafur hefur leikið í kvikmyndunum Órói (2010) og Taka 5 (2019), auk þess sem hann hefur leikið í fjölda þáttasería, stuttmynda og auglýsinga. Ólafur hefur þar að auki starfað sem leiklistarkennari á öllum skólastigum og hefur síðastliðin 5 ár kennt spuna á vegum Improv Ísland auk þess sem hann sýnir vikulega spunasýningar í Þjóðleikhúskjallaranum.
Þetta er í fyrsta sinn sem Ólafur kennir við skólann.


Tjöldin frá: Framhald á námskeiðinu Bak við tjöldin í leikmynda- og búningagerð

Kennarar eru Eva Björg Harðardóttir og Ingvar Guðni Brynjólfsson

Þátttökugjald: 104.500 kr.
Forkröfur: Umsækjendur hafi sótt grunnnámskeiðið „Á bak við tjöldin“, sambærilegt námskeið eða hafi brennandi áhuga/umtalsverða reynslu af vinnu við leikmyndir, leikmuni og/eða búninga.
Hvað verður á sviðinu þegar tjöldin dragast frá? Markmið námskeiðsins er að efla nemendur í að koma hugmyndum sínum á svið og að eiga samskipti við framkvæmdaaðila. Kynnt verða verkfæri og tækni til að hugsa út fyrir rammann og koma hugmyndum sínum í verk.
Kennarar eru tveir og hafa umtalsverða reynslu í leikmynda-, leikmuna-, búninga- og leikgervagerð. Þeir skipta með sér námskeiðstímanum svo allir nemendur fá sömu kennslu. Einnig verður námskeiðið að einhverju leyti aðlagað þáttakendum.
Námskeiðið byggir á mikilli virkni allra þátttakenda en bæði verður unnið í einstaklingsvinnu og hópum. Námskeiðið skiptist í fyrirlestra, umræður og verklegar æfingar.
Leikmynd og leikmunir:
Uppfærsla módels/teikninga í raunstærð.
Efnisval, helstu eiginleikar og efnisfræði mest notuðu efna í leikmynd; stærðir, nýting, hvað er hægt og hvað má.
Hvað má ekki. Öryggi, reglugerðir og kröfur.
Tímarammi, framgangur verks.
Unnið að verkefnum.
Búningar og leikgervi:
Þjónusta gervis við leikara/hlutverk. Aðferðir við búninga- og leikgervagerð.
Efnisval – hefðbundið og óhefðbundið. Endurnýting.
Búningagerð án saumavélar.
Unnið að verkefnum.
Leitað er eftir frumkvæði nemenda og stendur nemendum til boða að mæta með „verkefni að heiman“, og gæti námskeiðið þannig nýst við undirbúning komandi verkefna.
Eftir að skráningu lýkur verður þátttakendum sendur listi yfir verkfæri og efnivið sem gott er að hafa með sér.

Ingvar Guðni Brynjólfsson er húsasmíðameistari og hefur m.a. starfað við leikmyndir í leikhúsum, sjónvarpi og kvikmyndum. Ingvar hefur starfað með Leikfélagi Selfoss, Hugleik, Sýnum, Freyvangsleikhúsinu og Leikfélagi Mosfellssveitar, eins í Þjóðleikhúsinu, Latabæ og með Miðnætti, ýmist einn eða með hóp. Þetta er í fyrsta sinn sem Ingvar kennir við skólann.

Eva Björg Harðardóttir lauk M.A. námi í leikmynda- og búningahönnun (Theatre Design) frá University of the Arts London árið 2016. Hún hefur einnig B.Ed. gráðu í kennslufræðum frá Kennaraháskóla Íslands. Eva Björg er sjálfstætt starfandi leikmynda- og búningahönnuður og hefur unnið mikið með sjálfstæðum leikhópum sem og áhugafélögum. Eva Björg stofnaði leikhópinn Miðnætti ásamt Agnesi Wild og Sigrúnu Harðardóttur og hefur hannað öll verkefni hópsins, en hópurinn einbeitir sér að því að framleiða vandaðar leiksýningar og sjónvarpsefni fyrir börn. Eva Björg hefur einnig hannað fyrir Menningarfélag Akureyrar, Cauda Collective, Hringleik, Umskiptinga, Artik, Sirkus Íslands, Spindrift Theatre, Lost Watch og fleiri. Einnig hefur Eva Björg starfað við kennslu, í kvikmyndum, við búninga- og leikmunagerð og séð um sviðssetningar og búninga fyrir viðburði og heimildaþætti. Þetta er í annað sinn sem Eva Björg kennir við skólann.


Leikarinn sem skapandi listamaður

Kennari er Rúnar Guðbrandsson

Þátttökugjald: 104.500 kr.
Forkröfur: Námskeiðið er ætlað þeim sem hafa sótt Leiklist I og II eða sambærileg námskeið eða hafa umtalsverða reynslu af leiklist.
Leikarinn sem skapandi listamaður (eða Leikarinn sem höfundur)
Á þessu námskeiði verður leitast við að hjálpa leikaranum að skapa og forma sitt eigið efni gegnum ýmis konar æfingar og spunavinnu, bæði sem einstaklingur og hluti af hóp.
Enda þótt sköpun sé útgangspunktur á námskeiðinu snýst það líka um tækni, og þjálfun, því: “Hversu skapandi sem við erum, þá höfum við engan farveg til að beina sköpunarkrafti okkar í – ef okkur skortir tækni”.
Þátttakendum verður síðan gert að nýta sér þá tækni sem þau hafa tileinkað sér á skapandi hátt og verður þá unnið með ýmis konar spunaaðferðir og samsetningar.
Áhersla verður lögð á persónulega og einlæga tjáningu og í því sambandi m.a. unnið með æfingar þar sem þátttakendur nota sína eigin reynslu (t.d.minningar) og ímyndunarafl (langanir, vonir, ótta, drauma etc.), en einnig leitum við vítt og breitt um veröld alla að efnivið til að skapa leikrænar aðstæður og þróa sögur.
Þó oft verði unnið í hópum og pörum verður einstaklingurinn ævinlega í brennidepli þar sem hann þarf stöðugt að spyrja sjálfan sig: Hvað vil ég segja með list minni?
Harmi og gleði verður gert jafnhátt undir höfði og ýmsar frásagnaaðferðir, stílar og stefnur skoðaðar og reyndar í leit að innblæstri. “Go bananas, – but with control”!!!

Rúnar Guðbrandsson nam upphaflega leiklist í Danmörku og starfaði þar sem leikari um árabil, með ýmsum leikhópum. Frekari þjálfun hlaut hann m.a. hjá Odin leikhúsinu í Holsterbro, hjá leikhópi Jerzy Grotowskis í Wroclaw í Póllandi, Dario Fo á Ítalíu, Jury Alschitz í Kaupmannahöfn og víðar, og Anatoly Vasiliev í Moskvu. Rúnar lauk MA og MPhil gráðum í leiklistarfræðum og leikstjórn frá De Montfort háskólanum í Leicester á Englandi og hefur lokið fyrri hluta doktorsnáms í fræðunum. Hann hefur leikstýrt fjölda leiksýninga hérlendis og erlendis og fengist við leiklistarkennslu og þjálfun leikara víða í Evrópu. Rúnar var fyrsti prófessor í leiktúlkun við Listaháskóla Íslands. Hann hefur rekið leiksmiðjuna Lab Loka síðan 1992, stjórnað þjálfun hópsins og stýrt flestum verkefnum hans hérlendis og erlendis. Hann hefur auk þess fengist við ýmis konar tilraunastarfsemi á vettvangi kvikmynda og gjörningalistar.
 Þetta er í tólfta sinn sem Rúnar kennir við skólann.


Leiklistarskóli Bandalags íslenskra leikfélaga 2021 – Almennar upplýsingar

Skráning í skólann stendur yfir frá kl. 16.00 þann 14. mars til og með 15. apríl. Umsóknir skal fylla út á Leiklistarvefnum, www.leiklist.is. Opnað verður fyrir umsóknir 14. mars.
Reglan Fyrstur kemur – fyrstur fær gildir við skráningar gegn greiðslu staðfestingargjalds, kr. 40.000, ef inntökuskilyrðum er fullnægt að öðru leyti. Náist ekki ásættanlegur fjöldi á tiltekið námskeið fellur það niður. Aldurstakmark í skólann er 18 ár. Skólinn hefur sett sér reglur, m.a. um umgengni, reykingar og áfengisneyslu, sem nemendur samþykkja að fara eftir á starfstíma skólans.

Starfstími skólans á þessu ári er frá 19. til 27. júní. Skólasetning er laugardaginn 19. júní kl. 9.00 og hefjast námskeiðin strax þar á eftir. Nemendur eru velkomnir að Reykjaskóla kvöldið fyrir skólasetningu, frá kl. 20.00 en ekki er boðið upp á kvöldverð. Skólaslit eru kl. 12.00 sunnudaginn 27. júní. Viðurkenningarskjöl og merki skólans verða afhent við skólaslit.
Aðstaða í Reykjaskóla: Svefnherbergin eru búin 2 uppbúnum rúmum, þ.e. koddi, sæng, lak og sængurföt fylgja með, litlu borði og tveim stólum. Nemendur hafi með sér handklæði og sundföt. Sundlaug, gufubað og heitir pottar eru á staðnum.
Innfalið í skólagjaldi er fullt fæði, þ.e. morgunmatur, hádegismatur og kvöldmatur auk kaffiveitinga tvisvar á dag.
Haldið er lokahóf síðasta kvöldið þar sem fólk klæðir sig upp á, kveður kennarana sína og skemmtir hvert öðru með dansi og söng.

Þátttökugjald á námskeið er 104.500 kr. Staðfestingargjald er kr. 40.000 og greiðist það við skráningu. Staðfestingargjald er óendurkræft nema gegn framvísun læknisvottorðs.
Gjaldið skal vera að fullu greitt 10 dögum fyrir skólasetningu. Innifalið í þátttökugjaldi er gisting, matur, kennsla og gögn.

Meðlimum aðildarfélaga Bandalags íslenskra leikfélaga er bent á að félögin geta sótt um smá styrk til Bandalagsins ef þau senda nemendur í skólann.
Kennarar skólans og starfsfólk:
Skólastýra — Dýrleif Jónsdóttir, dillajons@gmail.com
Skólastýra — Hrefna Friðriksdóttir, hrefnafr@hi.is
Leiklist I — Ólafur Ásgeirsson, oliskoli@gmail.com
Leikritun II — Vala Fannell, vala@mak.is
Sérnámskeið fyrir leikara — Rúnar Guðbrandsson, labloki@mmedia.is
Bak við tjöldin II – Eva Björg Harðardóttir, evabjorg@gmail.com & Ingvar Brynjólfsson, ingvarbryn@simnet.is


Umsókn telst gild þegar staðfestingargjald hefur verið greitt. Greiða skal í síðasta lagi 
 15. apríl til Bandalags ísl. leikfélaga og senda tilkynningu á netfangið info@leiklist.is. Greiða skal inn á reikning:
Kt. 440169-0239 / Banki 334-26-5463

Bandalag íslenskra leikfélaga, Kleppsmýrarvegi 8, 104 Reykjavík
sími 551 6974, netfang info@leiklist.is, veffang www.leiklist.is