Einleikurinn, Ég heiti Rachel Corrie, verður frumsýndur á Litla sviði Borgarleikhússins, þann 19. mars kl 20.00. Verkið er umdeilt en það tók tæpt ár fyrir Bandaríkjamenn að þora að setja það upp í heimalandinu, af ótta við reiði og uppþot vegna stjórnmálaskoðana Rachel Corrie og sýn hennar á ástand heimsmála. María Ellingsen leikstýrir leikkonunni Þóru Karítas í uppsetningunni, en hljóðmynd er í höndum Möggu Stínu sem stundar nú nám í kvikmyndatónlist við LHÍ. Magga Stína fékk palestínsku flóttakonurnar sem búa á Akranesi til að ljá hljóðheiminum lið en í uppfærslunni fær söngur þeirra, hlátur og grátur, að heyrast.

Þann 16. mars sl. voru sex ár liðin síðan Rachel Corrie lét lífið með hörmulegum hætti á Gaza svæðinu í Palestínu. Eftir dauða hennar birtust tölvupóstsendingar hennar til foreldra sinna í Guardian dagblaðinu í Bretlandi –  þar sem sýn hennar á ástandið á Gaza svæðinu var endurspegluð. Einleikur í leikgerð Alan Rickman og Katherine Viner byggður á dagbókarbrotum Rachel Corrie hefur farið sigurför um allan heim. Í ljósi nýliðinna atburða og skelfilegra aðgerða ísraelshers á Gaza svæðinu í Palestínu nú skömmu eftir jól – er ljóst að erindi Rachel Corrie hefur aldrei verið brýnna.

Þóra Karítas ferðaðist til Palestínu árið 2008 til að hitta foreldra Rachel Corrie sem voru viðstaddir frumsýningu á einleiknum í arabíska leikhúsinu í Haifa árið 2008 á dánardægri Rachel Corrie þann 16. mars. Foreldrar Rachel Corrie hafa helgað líf sitt baráttunni fyrir frjálslri Palestínu eftir að dauða dóttur þeirra. Þau eru nú meðal eftirsóttustu fyrirlesara í heimi um málefni Palestínu og er verið að vinna í því að fá þau hingað til lands í apríl.

Leikstjóri: María Ellingsen Aðstoðarleikstjóri: Bjartmar Þórðarson Leikari: Þóra Karítas Árnadóttir Tónlist og hljóðmynd: Magga Stina Leikmynd: Filippía Elísdóttir Ljós: Björn Bergsteinn Guðmundsson Hljóð: Sigurvald Ívar Helgason Búningar: Filippía I. Elísdóttir

{mos_fb_discuss:2}