Alþjóðlegi barnaleikhúsdagurinn er haldinn ár hvert að frumkvæði ASSITEJ International – alþjóðasamtaka um barna- og unglingaleikhús.  Með samskiptaneti sem tengir saman þúsundir leikhúsa og einstaklinga um allan heim hvetur ASSITEJ leikhúslistamenn sem vinna að leiksýningum fyrir börn og unglinga að slá hvergi af listrænum kröfum í starfi sínu.  ASSITEJ leitast við að sameina ólíka menningarheima og kynþætti í baráttu fyrir friði, jafnrétti, umburðarlyndi og menntun.
 
Í tilefni af alþjóðlegum leikhúsdegi barna í ár hefur Þórarinn Eldjárn, að beiðni Samtaka um barna- og unglingaleikhús á Íslandi, samið eftirfarandi ávarp.

 

Ávarp á alþjóðlegum leikhúsdegi barna 20. mars 2009
eftir Þórarin Eldjárn

 
Leikhúsmiði……
 og leikarar uppi á sviði.
 Þar sem allir geta orðið það sem þeir vilja.
 Þau æpa, hvísla,  syngja, tala, þylja….
 eitthvað sem allir krakkar skilja.
 Fullorðnir verða börn og börnin gömul um stund
 Breytist einn í kött og annar í hund.
 Leikararnir skemmta,  fræða,  sýna, kanna, kenna………..
 Kæti,  læti,  tryllingur og spenna.
 Stundum er verið að reyna að ráða gátur
 svo reka sumir upp taugaveiklaðan hlátur
 og beint á eftir byrjar í salnum grátur.
 Samt er alveg ótrúlega gaman
 hvernig allir geta setið þarna saman
 og horft á hvað leikararnir eru snarir í snúningum
 og í sniðugum búningum…..
 
Þess vegna er alveg full ástæða til að þakka
 að þessi dagur í dag skuli vera frátekinn sem alþjóðlegur leikhúsdagur krakka.