Draugasetrið á Stokkseyri sendi nokkra af sínum bestu fulltrúum til að hrella Reykvíkinga á Menningarnótt í boði Tryggingarmiðstöðvarinnar. Þeir fóru hamförum í höfuðborginni og eru líkur jafnvel taldar á að þeir hafi sett heimsmet.
Á tveim vikum var stórum hluta af neðstu hæð Morgunblaðshallarinnar gömlu breytt í heimkynni þekktra þjóðsagnapersóna. Þar voru Djákninn á Myrká, Þorgeirsboli, sjódraugur, Mórar og Skottur. Á stærsta sviðinu var leikið örleikritið Uppvakningurinn sem fór að sjálfsögðu fram í kirkjugarði. Kuklari vekur upp draug – draugur skilur ekki íslensku og ræðst á kuklara – kuklari nær að sleppa og sækir prestinn – presturinn neglir drauginn niður aftur með Biblíunni. Tólf fræknir leikarar úr Flóanum fóru með hlutverk drauganna og vissu að ef að aðsóknin að sýningunni yrði stöðug og óslitin frá kl. 13 til kl. 21 þá gætu flestir þeirra ekki náð neinu hléi allan þennan tíma. Og viti menn. Nokkru áður en opnað var myndaðist löng biðröð við innganginn og allan daginn náði svo röðin Aðalstrætið á enda og tók gesti um klukkutíma að komast inn. Við þessar aðstæður var þá aðeins um eitt að ræða: THE SHOW MUST GO ON !!
Aðeins Mórarnir og Skotturnar gátu skipst dálítið á og þannig náð að fá sér smá hressingu og kíkja á klósettið. Sjódraugurinn drukknaði og gat því ekki verið að þamba vatn. Þorgeirsboli var í mjög þungri múnderingu og tókst honum þrisvar að hleypa út mesta dampinum svo lítið bæri á. Djákninn á Myrká þoldi einna best við enda uppistaðan í honum beinagrind úr Skólavöru- búðinni. Mest mæddi þó á leikurunum í Uppvakningnum því þeir urðu að leika án afláts þáttinn sinn 125 sinnum því eftir hverja sýningu tók það aðeins tvær mínútur þar til komnir voru nýir áhorfendur. Prestinn lék stærsti prestur Íslands, Sr. Kristinn Ágúst, (skór númer 52) og kirkjuklukkunni var hringt 375 sinnum þennan dag. Annað eins leikþrek og þarna var sýnt hefur tæplega verið framið áður og er jafnvel talið að um heimsmet sé að ræða.