Þjóðleikhúsið frumsýnir leikritið Heiður laugardaginn 24. janúar nk. í Kassanum við Lindargötu 7. Leikstjóri sýningarinnar er Bjarni Haukur Þórsson. Hér er á ferðinni einstaklega vel skrifað dramatískt verk um hjónabandið, ástina og ábyrgð okkar á eigin hamingju. Leikarar í sýningunni eru Anna Kristín Arngrímsdóttir, Arnar Jónsson, María Ellingsen og Sólveig Arnarsdóttir.

Höfundur leikritsins er ástralska leikskáldið Joanna Murray-Smith en hún er eitt af þekktustu leikskáldum Ástralíu. Hún hefur skrifað á annan tug leikrita, skáldsögur, kvikmyndahandrit og sjónvarpsleikrit, og unnið til fjölda verðlauna fyrir ritstörf sín. Heiður eða Honour var frumflutt árið 1995, og verkið hefur verið sýnt í fjölda uppsetninga í yfir þrjátíu löndum, meðal annars á Broadway og hjá Breska þjóðleikhúsinu.

Aðalpersónur verksins voru heiðurshjón í þrjátíu ár. Þau voru ein heild, samhent, náin. En skyndilega, dag einn, stendur hann frammi fyrir henni eins og ókunnugur maður. Getur öryggi ástarinnar orðið óvinur okkar? Er hægt að lifa lífi sínu í gegnum aðra manneskju? Er einhvern tímann of seint að byrja nýtt líf? Í Heiðri fylgjumst við annars vegar með hjónum sem eru komin yfir miðjan aldur, og hinsvegar tveimur gerólíkum ungum konum, sem eiga lífið framundan. Hvernig getum við látið drauma okkar rætast? Hvenær erum við það sem við ætluðum okkur að verða? Leika manneskjurnar sér með lífið, eða leikur það sér að okkur?

Leikmynd og búninga hannar Axel Hallkell en um lýsingu sér Hörður Ágústsson. Þýðandi verksins er Gísli Rúnar Jónsson.

{mos_fb_discuss:2}