Freyvangsleikhúsið frumsýnir leikritið Þorskur á þurru landi í Freyvangi 20. febrúar nk. Þorskur á þurru landi er farsi frá árinu 2005 eftir þá Karl Tiedemann og Allen Lewis Rickman. TItill á frummáli Off the Hook.

Persónur leiksins eru átta en þátttakendur í heild eru rúmlega 20 manns. Daníel Freyr Jónsson þýddi og leikstýrir. Benedikt Axelsson sér um ljós, Þorsteinn Gíslason um leikmynd og Anna Bryndís Sigurðardóttir um búninga.

Þorskur á þurru landi gerist á mæðradaginn árið 1958.

Sir Evelyn Carstairs, breski sendiherrann við Sameinuðu þjóðirnar, hefur eytt kvöldinu á undan í að þjóra með Dag Hammarskjöld, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, á kránni Bælda Bælið í New Jersey. Þar kynnist hann hinni fögru Angie Puglese og endar á að skutla henni heim á bíl sem hann hafði fengið lánaðan hjá kokkinum sínum.
Þennan dag kemur íslenskur sendiráðunautur í sendiráðið til að semja um lausn skipsins Somerset sem hefur verið staðið að ólöglegum veiðum við Íslands strendur, en gamanið kárnar þegar Bill Puglese, afbrýðisamur eiginmaður Angie og þekktur glæpaforingi, birtist einnig í sendiráðinu líka eftir að hafa rakið bílnúmerið til kokks sendiherrans.
Í framhaldinu upphefjast mikil ærsl og misskilningur sem m.a. veita nýja sýn á upphaf Þorskastríðsins 1958 – 1961.

Karl Tiedemann er fæddur og uppalinn í New York. Hann var einn af þeim sem skrifuðu fyrir David Letterman þegar hann tók við The Late Show upp úr 1980. Seinni hluta níunda áratugarins og tíunda áratuginn vann hann helst við að skrifa fyrir Disney en hefur síðustu ár aðallega unnið með Sunday Night Improv leikhúsinu í New York.

Allen Lewis Rickman er einnig frá New York. Hann hefur skrifað nokkur leikrit með Karl Tiedemann en hefur aðallega sinnt leikstörfum, en hann lék meðal annars í You Don’t Know Jack með Al Pacino. Þekktastur er hann þó líklega sem George Baxter í Broadwalk Empire þáttunum.