Fyrsta leiksýningin sem við bjóðum upp á á nýju ári er Jesús litli, gestasýning frá Borgarleikhúsinu, sem var ótvíræður sigurvegari Grímunnar síðasta leikár. Jesús litli verður sýnd í Hofi frá og með 15. janúar og  aðeins í takmarkaðan tíma. Jesús litli var ótvíræður sigurvegari Íslensku leiklistarverðlaunanna, Grímunnar nú í vor. Jesús litli var valin sýning ársins og leikverkið sjálft var valið leikrit ársins auk þess sem sýningin hlaut sjö tilnefningar. Gagnrýnendur hlóðu sýninguna lofi og áhorfendur voru djúpt snortnir. Sumsé: Leikhús eins og það gerist best!

Við erum stödd í Palestínu á því herrans ári núll. Rómverjar hafa sölsað undir sig Palestínu og Heródes er settur landstjóri. Þegar spyrst út að frelsari muni fæðast í landinu gefur hann út tilskipun um að myrða skuli öll sveinbörn, tveggja ára og yngri. Ljótt er það. Og trúðarnir dásamlegu spyrja: Hver fæðir eiginlega barn inn í slíkt ástand? Öll vitum við að Jólaguðspjallið er einstaklega fallegt og hátíðlegt en það er ekki síður átakanlegt. Trúðarnir láta allt flakka umbúðalaust. Þeim er ekkert óviðkomandi; þeir velta við öllum steinum, snúa öllu á hvolf og segja allan sannleikann – og ekkert nema sannleikann. Jafnvel þótt hann sé grimmur. Eða fyndinn.

Miðasala er þegar hafin á www.leikfelag.is, www.menningarhus.is og í síma 4 600 200. Þegar er orðið uppselt á margar sýninganna svo það borgar sig að hafa hraðan á til að ná í miða á þessa mögnuðu sýningu.

{mos_fb_discuss:2}