Halldór í Hollywood eftir Ólaf Hauk Símonarson hefur hlotið góðar viðtökur leikhúsgesta. Sýningin er sú fyrsta sem sýnd er eftir breyttu sýningafyrirkomulagi í Þjóðleikhúsinu, það er þéttar en í skemmri tíma. Sem fyrr segir, verður allra síðasta sýning á laugardagskvöldið.
Leikritið byggir á Ameríkuárum Halldórs Kiljans Laxness 1927 – 1929 þegar Halldór var ungur ofurhugi. Í Hollywood heillaðist hann af kvikmyndaiðnaðinum og ætlaði sér að slá í gegn sem handritshöfundur kvikmynda. En það var ekki auðvelt að sigra Hollywood þá frekar en nú og hræsnin í bandarísku samfélagi átti ekki upp á pallborðið hjá skáldinu. Hann varð fljótt gagnrýninn á efnalega mismunun og þjóðfélagslegt ranglæti. Í leikriti Ólafs Hauks sjáum við hvernig dvöl Halldórs í Ameríku varð fyrst og fremst til þess að hann fann Ísland á ný og gerðist íslenskur rithöfundur. Við sögu koma ýmsir vinir og velgjörðarmenn Halldórs frá Ameríkuárunum, nokkrar af skærustu stjörnum Hollywood á þessum tíma eins og Charlie Chaplin og Greta Garbo og síðast en ekki síst allar konurnar í lífi hans.
Það er sem áður segir Atli Rafn Sigurðarson sem fer með hlutverk Nóbelskáldsins, um tónlistarstjórn sér Árni Heiðar Karlsson en leikstjóri er Ágústa Skúladóttir.