thjodleikhus_logo.gifStofnaður hefur verið nýr sjóður, Prologus, með það að markmiði að hlúa að leikritun á Íslandi og efla höfundastarf við Þjóðleikhúsið. Sjóðurinn er stofnaður af Bjarna Ármannssyni og Helgu Sverrisdóttur, í samvinnu við Þjóðleikhúsið.

Stofnframlag sjóðsins er 16 milljónir króna, en sjóðurinn mun starfa frá árinu 2008 til ársins 2010. Sjóðurinn var formlega stofnaður í dag, þriðjudaginn 10. júní. Í kjölfarið verður auglýst eftir hugmyndum að leikverkum og öðrum verkefnum.

 

Með stofnun Prologus sjóðsins gefst mikilsvert og kærkomið tækifæri til að efla nýsköpun fyrir leiksvið, en sjóðnum er ætlað að veita árlega allt að fimm höfundum fjárframlag til að vinna úr áhugaverðum hugmyndum og koma þeim í handritsform, ýmist sem drög eða fullbúin leikrit. Sjóðnum er einnig ætlað að stuðla að framþróun og eflingu leikritunar með höfundasmiðjum, samkeppni, útgáfu og tilraunaverkefnum þar sem teflt er saman fólki úr ólíkum listgreinum.

Ritun nýrra leikrita er einn af hornsteinum leikhúslífs á Íslandi, og Þjóðleikhúsið leggur ríka áherslu á það í starfi sínu að hlúa að og efla leikritun í landinu. Vonir standa til þess að stofnun sjóðsins verði til þess að skrifuð verði fleiri góð leikrit á Íslandi sem ná að spegla samtímann eða takast á við mannlífið í víðara samhengi og eru til þess fallin að efla menningu og samfélag.

Fagráð sjóðsins fjallar um innsendar umsóknir og mælir með verkefnum við sjóðstjórn, en ráðið getur einnig að eigin frumkvæði mælt með verkefnum. Sjóðstjórn er skipuð þeim Tinnu Gunnlaugsdóttur þjóðleikhússtjóra, Bjarna Ármannssyni og Vigdísi Finnbogadóttur. Í fagráði sitja Sveinn Einarsson leikhúsfræðingur og Melkorka Tekla Ólafsdóttir, leiklistarráðunautur Þjóðleikhússins, ásamt þjóðleikhússtjóra.