Leiklistarskóla BÍL var slitið í 25 sinn um liðna helgi. Fjörutíu nemendur útskrifuðust af 3 námskeiðum en auk þeirra voru 11 höfundar í heimsókn að vinna að verkum sínum. Haldin voru námskeiðin Leiklist I í stjórn Ólafs Ásgeirssonar, Leikstjórn II sem Jenný Lára Arnórsdóttir stýrði og sérnámskeiðið Hvernig segjum við sögu? í stjórn Ágústu Skúladóttur.
Þau tíðindi voru tilkynnt á lokakvöldi að skólastýrur til 15 ára, þær Dýrlif Jónsdóttir og Hrefna Friðriksdóttir myndu nú láta af störfum. Var þeim klappað lof í lófa og þær leystar út með gjöfum með þakklæti fyrir fórnfúst starf í þágu skólans í einn og hálfan áratug. Þá voru nýir skólastjórnendur kynntir til sögunnar en það eru þau F. Elli Hafliðason og Jónheiður Ísleifsdóttir.