Sjóræningjarnir hafa tekið yfir Borgarleikhúsið! Ævintýralegasta fjársjóðsleit allra tíma, Gulleyjan verður frumsýnd á Stóra sviðinu 14. september næstkomandi. Þetta samstarfsverkefni Borgarleikhússins og Leikfélags Akureyrar sló rækilega í gegn í fyrra og var sýnt hátt í fimmtíu sinnum fyrir fullu húsi norðan heiða. Nú verður þetta bráðfjöruga ævintýri fyrir alla fjölskylduna frumsýnt í höfuðborginni  – enn stærra og glæsilegra! Sigurður Sigurjónssons leikstýrir verkinu og skrifaði leikgerð ásamt Karli Ágústi Úlfssyni.

Verkið Gulleyjan er ævintýraleg sýning fyrir alla fjölskylduna, full af galdri, gulli, græðgi, bardögum, blekkingum, talandi páfagaukum og kostulegum persónum. Sigurður Sigurjónsson leikstýrir fríðum hópi leikara og skrifaði hann handritið ásamt Karli Ágústi Úlfssyni. Þá var hin grípandi tónlist Þorvaldar Bjarna Þorvaldssonar tilnefnd til Grímuverðlaunanna í vor.

Gamall sjóræningi gefur upp öndina á sveitakránni. Fyrr en varir er Jim, hinn ungi sonur kráareigandans, kominn á skipsfjöl á leið í Suðurhöf með skuggalegri áhöfn. Þar á meðal er skipskokkurinn Langi-Jón Silfur sem er ekki allur þar sem hann er séður! Ein ævintýralegasta fjársjóðsleit allra tíma er hafin!

Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson sá um tónsmíðar fyrir verkið. Leikmynd hannaði Snorri Freyr Hilmarsson, lýsingu annast Björn Bergsteinn Guðmundsson og Magnús Helgi Kristjánsson og búningahönnuðir eru Agnieszka Baronowska og Júlíanna Lára Steingrímsdóttir. Björn Jörundur Friðbjörnsson, Sigurður Þór Óskarsson og Álfrún Örnólfsdóttir eru í burðarhlutverkum í sýningunni. Hátt í 1.000 stórir sjóræningjafánar voru gefnir í Gulleyjuratleik á Opnu húsi Borgarleikhússins um síðustu helgi og viðtakendur hvattir til að flagga yfir frumsýningarhelgi til að skapa sjóræningjastemmingu í borginni.