Á lokasýningu Kardemommubæjarins í Þjóðleikhúsinu s.l. sunnudagskvöld, sem vel að merkja var 98. sýningin, var fjórum listamönnum veittur styrkur úr Egner-sjóðnum og hlaut hver þeirra 250.000 kr. Þetta eru þau Selma Björnsdóttir, leikstjóri sýningarinnar, Baldur Trausti Hreinsson sem lék Bastían bæjarfógeta, Kjartan Guðjónsson sem fór með hlutverk ræningjans Jónatans og Þórhallur Sigurðsson sem hefur sett upp fjöldan allan af barnasýningum og hefur auk þess yfirumsjón með Kúlunni, litla barnasviði Þjóðleikhússins.

Þess má geta að um þessar mundir eru tvær barnasýningar í leikstjórn Þórhalls Sigurðssonar í sýningu í húsinu. Sindri Silfurfiskur í Kúlunni og Leitin að jólunum, sem nú er sýnd á aðventunni fimmta árið í röð.

Leikrit Thorbjörns Egners hafa notið mikilla vinsælda á Íslandi allt frá því að Kardemommubærinn var fyrst settur á svið hér í Þjóðleikhúsinu árið 1960, aðeins örfáum árum eftir að verkið var skrifað. Síðan þá hefur það verið sett upp reglulega, en alls hafa um 200 þúsund gestir séð Kardemommubæinn í Þjóðleikhúsinu í gegnum tíðina.

Árið 1975 þegar tuttugu og fimm ár voru liðin frá opnun Þjóðleikhússins, heimsótti Thorbjörn Egner leikhúsið og gaf því höfundarlaun sín til þess að koma á fót sjóði sem verðlauna skyldi leikhúsfólk og efla samskipti og kynningu milli Íslendinga og Norðmanna á leiklistarsviðinu.

Í sjóðsstjórninni sitja auk þjóðleikhússtjóra þau Guðrún Helgadóttir, rithöfundur og Sigurður Sigurjónsson, leikari.