Á hverju ári stendur Þjóðleikhúsið fyrir vali á athyglisverðustu áhugaleiksýningu leikársins. Þjóðleikhússtjóri, Tinna Gunnlaugsdóttir, tilkynnti um valið á áhugasýningu ársins á þingi Bandalags íslenskra leikfélaga í Skagafirði þann 3. maí s.l., en fyrir valinu í ár varð sýning Halaleikhópsins á Gaukshreiðrinu, leikgerð Dale Wasserman byggðri á skáldsögu Ken Kesey í þýðingu Sonju B. Jónsdóttur. Að venju verður sýningin sem fyrir valinu varð sýnd í Þjóðleikhúsinu, en Gaukshreiðrið verður sýnt á Stóra sviðinu miðvikudaginn 4. júní nk. Leikstjóri sýningarinnar er Guðjón Sigvaldason.
Markmið Halaleikhópsins er að „iðka leiklist fyrir alla“. Hópurinn hefur sett upp sýningar ár hvert sem margar hverjar hafa vakið mikla athygli. Hjá Halaleikhópnum er fengist við leiklist á forsendum hvers og eins. Um leið hefur hópurinn opnað augu almennings fyrir því að fatlað fólk getur, þrátt fyrir ýmsar hindranir, leikið á sviði eins og allir aðrir. Þar með hefur hópurinn á sinn hátt átt þátt í að eyða fordómum í garð fatlaðra.

Gaukshreiðrið fjallar í víðu samhengi um vald og valdbeitingu andspænis dirfsku einstaklinganna og samtakamætti hinna kúguðu. En um leið fjallar verkið um stöðu geðsjúklinga, hvaða augum samfélagið lítur þá og hvað felst raunverulega í því að vera geðveikur. Þetta er ógnvekjandi en um leið sprenghlægilegt verk sem notið hefur gífurlegra vinsælda víða um heim um árabil. Verkið endurspeglar uppreisnaranda sem ríkjandi var í hinum vestræna heimi á seinni hluta sjöunda áratug síðustu aldar. Vistmanni á geðsjúkrahúsi misbýður harðstjórn og miskunnarleysi á stofnuninni og ákveður að gera uppreisn. Kerfið bregst ókvæða við og allt er gert til að brjóta uppreisnina á bak aftur. Í gegnum baráttuna sem á sér stað í verkinu kynnast einstaklingarnir nýjum og óvæntum hliðum á sjálfum sér og fólkinu í kringum sig.

Í umsögn dómnefndar Þjóðleikhússins kemur fram að verkefnaval leikhópsins beri vott um mikinn metnað, kjark og stórhug: „Leikhópurinn, sem hefur það að markmiði að „iðka leiklist fyrir alla“ fagnaði fimmtán ára afmæli sínu á þessu leikári. Rétt eins og Halaleikhópurinn hefur auðgað leiklistarflóru áhugaleikfélaga og leiklistar í landinu almennt, öðlast hið þekkta leikrit Gaukshreiðrið nýjar víddir í meðförum leikhópsins. Fötlun leikenda stendur engan veginn í vegi fyrir túlkun á verkinu, heldur þvert á móti auðgar hana og styrkir. Styrkur sýningarinnar felst þannig ekki síst í sterkri liðsheild, þar sem hver einstaklingur fær að njóta sín á eigin forsendum, þó hlutverkin séu vissulega mismunandi stór. Framsögn er til mikillar fyrirmyndar og sama má segja um hlustun og allan samleik. Langmest mæðir á þeim Gunnari Gunnarssyni (Gunsó) í hlutverki Randle P. Murphy og Sóleyju Björk Axelsdóttur í hlutverki Ratchet hjúkrunarkonu. Bæði áttu þau góðan leik. Leikmynd, búningar, lýsing, hljóðmynd og förðun myndaði sterka heild og einstaklega sannfærandi umgjörð um sýninguna.“

Tekið skal fram að rými fyrir áhorfendur í hjólastólum verður aukið í salnum á þessari sýningu.
Frekari upplýsingar má finna á heimasíðunni www.halaleikhopur.is