Havgird var sett upp síðastliðið vor af leikfélaginu Royndin í Nólsoy í Færeyjum, Ágústa Skúladóttir leikstýrði og leikmyndin er eftir Katrínu Þorvaldsdóttur. Tilurð sýningarinnar var samtal Ágústu við nokkra meðlimi leikfélagsins, þar sem rætt var um þann þátt sem Ísland og Færeyjar eiga sameiginlegan: hafið. Hafið er helsta auðlind beggja þjóða, en hafið hefur einnig tekið sinn toll þar sem margir sjómenn hafa horfið á hafi úti. Sýninguna unnu Ágústa, Katrín og leikhópurinn í sameiningu, og var markmiðið að heiðra minningu þeirra sem hafa týnst á sjó og aldrei snúið aftur og var efnið byggt á færeyskum, íslenskum og grænlenskum þjóðsögnum og þjóðsagnaminnum.
Í Havgird birtast okkur í upphafi fjórar persónur sem allar hafa týnst á hafi úti á mismunandi tímum. Þær hafa hreiðrað um sig á hafsbotni og byggt sér sinn ævintýraheim með því sem til fellur og þreyja tilbreytingarlítið hversdagslífið. Sjómaður ferst í skipsskaða og bætist í hóp þeirra, kemur róti á tilveru þeirra og ástin kviknar.
Miðaverð: kr. 2000
Eldri borgarar, námsmenn og börn: kr. 1500
Miðapantanir eru í síma 5655900 og í gaflarar@gmail.com.