Leikdeild Umf. Skallagríms setur nú í fyrsta sinn á fjalirnar hið sívinsæla leikrit Fullkomið brúðkaup eftir Robin Hawdon. Þýðandi verksins er Örn Árnason og leikstjóri er Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson. Frumsýnt verður 22. febrúar 2019 kl. 20:30 í félagsheimilinu Lyngbrekku. Fullkomið brúðkaup er bráðskemmtilegt og rómantískt gamanleikrit sem fjallar um ungt par sem er að fara að gifta sig. Ýmislegt óvænt kemur uppá á sjálfan brúðkaupsdaginn sem veldur misskilningi og mikilli geðshræringu. Ný ástarsambönd verða til á meðan önnur fara forgörðum. En þrátt fyrir allt ruglið er allt er gert til þess að láta daginn ganga upp, svo þetta verði fullkomið brúðkaup. Leikritið gerist í brúðarsvítunni á litlu sveitahóteli sem er staðsett nálægt kirkju þar sem steggjapartýið, athöfnin og brúðkaupsnóttin getur allt farið fram á sama stað eða hvað? Skallagrímsfólk leitar ekki langt yfir skammt því leikritið gerist á Hótel Búðum.
Þrátt fyrir veikindi og ófærð hefur æfingarferlið gengið mjög vel, enda vel skipulagt af drífandi, hvetjandi og jákvæðum leikstjóra. Það er góður hópur sem kemur að verkinu, samhentur og mórallinn afar góður. Verkefnið hefur að sögn verið einstaklega skemmtilegt og krefjandi.
Hægt er að panta miða í síma 8462293 eða á leikdeildskalla@gmail.com. Posi og veitingasala á staðnum.
Félagið er á Snapchat og Instagram þar er hægt að fylgjast aðeins með æfingum hjá hópnum, leitið að leikdeildskalla á snapchat og leikdeild á Instagram. Einnig er hægt að skoða Facebook-síðu félagsins.