Leikfélag Keflavíkur í samvinnu við Vox Arena, leikfélag fjölbrautaskóla Suðurnesja, vinna nú saman að nýju verkefni. Verkefnið, sem hlotið hefur nafnið: "KEFLAVÍK, ÍSLAND, ALHEIMURINN eða MAMMA ÞÍN" verður frumsýnt í Frumleikhúsinu föstudaginn 17. mars, kl 20:00.
Leikritið er unnið á all sérstakan hátt en það er leikhópurinn sjálfur sem býr til verkið. Að sögn Alexöndru, formanns Vox Arena, skoðar leikritið lífið í Keflavík, á Suðurnesjum og lífið almennt, á ansi sérstæðan hátt. Kjarni efnisins er unnin upp úr viðtölum við fólk, bæði af Suðurnesjum og annars staðar frá en hópurinn tók sér leyfi til að snúa út úr öllum upplýsingum sem það hafði og jafnvel snúa staðreyndunum á hvolf ef svo bar undir. Tónlistin í verkinu er einnig öll frumsamin og umræður um útgáfu á geisladiski með lögum úr verkinu standa nú yfir.
Frumsýning er á föstudaginn 17.mars kl. 20 og 2. sýning sunnudaginn 19. mars kl. 20.
Upplýsingar um sýningartíma og miðapantanir eru í síma 421-2540.
Einnig er hægt að fylgjast með á vef leikfélagsins www.lk.is