ImageLeikfélag Vestmannaeyja frumsýnir laugardaginn 18. mars leikritið Nunnulíf sem byggt er á kvikmyndinni Sister Act. Leikstjóri er Laufey Brá Jónsdóttir, kórstjóri er Helga Jónsdóttir. Sýnt er í Bæjarleikhúsinu.

ImageSister Act hefur aldrei verið sett upp á leiksviði og var undirbúningsvinnan því þó nokkur.  Ásamt leikstjórastöðu tók Laufey Brá að sér handritsgerð og galdraði hún fram handrit með guðs hjálp á ótrúlega stuttum tíma. Útkoman er Nunnulíf, stórskemmtilegt leikrit sem fléttar saman lífi reglusystra og hinu harða lífi undirheimanna. Leikritið fjallar í stuttu máli um söngkonu á næturklúbbi, Díönnu Díor, sem verður vitni að hræðilegum glæp.  Hún leitar aðstoðar lögreglu sem ákveður að fela hana í klaustri á meðan rannsókn á málinu fer fram.  Mikil togstreita á sér stað hjá söngkonunni og lífið í klaustrinu tekur óvænta stefnu.  
Leikfélag Vestmannaeyja og Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum standa saman að þessari uppsetningu en svona samstarf hefur verið ríkjandi undanfarin ár.  Stór hluti leikara eru nemendur í skólanum og er þessi vinna metin til eininga.
Æfingar hafa staðið yfir í um 6 vikur og er Helga Jónsdóttir kórstjóri hópsins.
Sýningar fara fram í Bæjarleikhúsinu.

Frumsýning laugardaginn 18. mars kl. 20:00
2. sýning föstudaginn 24. mars kl. 20:30
3. sýning laugardaginn 25. mars kl. 20:00

Miðasala í síma 481-1940