Þann 5. nóvember frumsýnir Leikfélag Kópavogs leikritið Það grær áður en þú giftir þig sem byggt er á Kirsuberjagarðinum eftir Tsjekov. Leikstjóri er Sigrún Sól Ólafsdóttir.
Leikurinn gerist í litlum bæ; Sandhellisgerði á Suðurfjörðum. Grönveltsfjölskyldan var eitt sinn voldugasta ættin á fjörðunum. Þau búa í hlíðinni ofan við bæinn, í einu fallegasta húsi þessa landshluta. Húsið má að vísu muna fífil sinn fegri og þarfnast sárlega lagfæringar. Umhverfis húsið er Grönveltslundur, hin fræga skógrækt sem Grönvelt gamli og Dillý, konan hans ræktuðu upp. Þegar þeim áskotnaðist þessi jarðarskiki sem enginn leit við, þá fóru þau að gera tilraunir með að rækta kartöflur og grænmeti, metnaðarfull ung hjón sem hugsuðu stórt. Þau seldu grænmetið inn í Aðalfjörð, og notuðu ágóðann til að kaupa fyrsta bátinn. Það var nýlunda að hægt væri að rækta grænmeti á fjörðunum. Þau seldu vel.
Grönvelt gamli byggði upp þennan bæ. Hann kom á fót útgerð, byggði frystihúsið og veitti hundruðum manna atvinnu. Veldi hans var stórt. Hann var mikill áhugamaður um skógrækt og vildi Grönveltslund friðaðan. Lundurinn varð tákn um veldi Grönvelts. Þegar hann var orðinn stórútgerðarmaður, önnum kafinn í vinnu, þá vissi hann ekkert betra en nota sinn litla frítíma til að gróðursetja birki og greni. “Hlaða batteríin.” Sagði hann; “það má ekki gleyma að hlaða batteríin.”
Erfingjar hans seldu burt kvótann, húsið er að hruni komið, og þar að auki á snjóflóðahættusvæði, þannig að nú má ekki búa í því nema á sumrin. Grönveltslundur er að kafna í illgresi, og engin sem nýtir matjurtagarðana stóru, sem voru grunnurinn að veldi Grönvelts gamla. Erfingjarnir liggja í hamborgaraáti og tölvuleikjum, og Ástvaldur, elsti sonurinn, gerir ekkert til að bjarga málunum. Íbúum Sandhellisgerðis fer óðum fækkandi, þar sem búið er að loka frystihúsinu, og ekkert að hafa nema pínulítill túrismi á sumrin og aðeins tveir bátar sem gera út.
En Lúðvík er athafnamaður. Hann er fæddur og uppalinn í plássinu. Hann gerir út þessa tvo báta, hann rekur videóleiguna og Essostöðina og hann vill bænum vel. Hann vill snúa vörn í sókn. Hann vill framkvæmdir. Hann vill nýta það að flugvöllurinn stendur við bæjardyrnar og nú er verið að grafa göng gegnum fjallið. Hann vill nýja ímynd á Sandhellisgerði.
En hlusta Grönveltserfingjarnir á hann?
Frumsýning laugardag 5.11.
2. sýn fim 10.11.
3. sýn sun 13.11.
4. sýn fim 17.11.
5. sýn sun 20.11.
6. sýn lau 25.11.
7. sýn sun 27.11.
8. sýn fim 1.12
9. sýn sun 4.12.
Sýningar hefjast klukkan 20:00
Sýnt er í Hjáleigunni í Felagsheimili Kópavogs
Miðasala midasala@kopleik.is