Föstudaginn 24. maí og laugardaginn 25. maí verða síðustu sýningar Lab Loka á leikverkinu Hvörf sem byggir hugarheim sinn á svokölluðu Guðmundar og Geirfinnsmáli. Verkið er sýnt í samvinnu við Þjóðleikhúsið og eru höfundar þess Rúnar Guðbrandsson og Sjón en Rúnar er jafnframt leikstjóri verksins. Leikritið hefur hlotið afbragðs viðtökur áhorfenda enda kafar það ofan í umdeildasta sakamál 20. aldarinnar á Íslandi.

Hvörf er ferðalag um völundarhús sálar og samfélags. Hér er annars vegar um að ræða hreinan sviðsskáldskap er lýtur sínum eigin lögmálum og nýtir sér margslungin meðöl leiklistarinnar og óheft hugarflug til að skapa veröld sem á sér stað langt handan hversdagsins og allra raunsæislegra viðmiða.

Hins vegar sækir verkið allan sinn innblástur og orðræðu í blákaldan raunveruleikann, nefnilega svokallað Guðmundar og Geirfinnsmál sem skók íslenskt samfélag á árunum 1974 – 1980. Sá dómur er Hæstiréttur felldi þá hefur síðan legið eins og mara yfir þjóðinni.

Lab Loki hefur starfað að tilraunum og rannsóknum á sviði leiklistar í tuttugu ár jafnt hérlendis sem erlendis og hefur sú starfsemi getið af sér á þriðja tug sviðsverka og viðburða.

Nýleg verk Lab Loka eru t.d. Steinar í djúpinu eftir Rúnar Guðbrandsson byggt á verkum Steinars Sigurjónssonar, Ufsagrýlur eftir Sjón og Svikarinn eftir þá Rúnar Guðbrandsson og Árna Pétur Guðjónsson byggt á verkum Jean Genet.

Leikmynd og búninga hannar Eva Signý Berger, um tónlist og hljóðhönnun sér Guðni Franzson og leikarar eru Arnar Jónsson, Árni Pétur Guðjónsson, Birna Hafstein, Friðrik Friðriksson, Stefán Hallur Stefánsson, Magnús Jónsson, Hilmir Jensson, Svandís Dóra Einarsdóttir, Þorsteinn Backman og fleiri.