Þann 5. nóvember n.k. mun Leikfélag Dalvíkur frumsýna sérstaka barnadagskrá, valin atriði úr verkum Thorbjörns Egners. Leikstjóri sýningarinnar er Arnar Símonarson. Um 14 leikarar taka þátt í þessari uppfærslu, en auk þess koma um 15 manns að með einum eða öðrum hætti, s.s. hvað varðar búninga, hár, förðun og fleira. Pétur Skarphéðinsson hannar lýsingu og Friðrik Sigurðsson hannar leikmynd. Tónlistarflutningur er í höndum Dagmanns Ingvasonar og Einars Arngrímssonar. Guðný Ólafsdóttir hannar leikskrá.
Áætlað er að sýna þessa barnadagskrá 11 sinnum, út nóvember. Í þessari sérstöku barnadagskrá verða þeir félagar Karíus og Baktus kynntir til sögunnar, litið er inn til Kaspers, Jespers, Jónatans og Soffíu frænku í Kardimommubæ og svo birtast á sviðinu í Ungó þekktar persónur úr Hálsaskógi, s.s. Mikki refur, Hérastubbur bakari og Lilli Klifurmús ásamt fleirum. Margir þekktir söngvar eru í sýningunni og líf og fjör á sviðinu.
Leikfélagar hlakka til að fá áhorfendur í húsið eftir umfangsmiklar breytingar og unga fólkið er boðið sérstaklega velkomið auðvitað, en líka pabbar og mömmur, afar og ömmur, frændur og frænkur.
Miðapantanir eru í síma leikfélagsins 868 9706 (Fríða Magga).
Miðaverði er stillt í hóf, en það er 1000 kr. fyrir 2 – 12 ára og 1200 krónur fyrir 13 ára og eldri.
Bent er á heimsíðu LD, en netfang síðunnar er leikfelagdalvikur.net