Fjórar sýningar eru í boði á fjölum Tjarnarbíós í janúar. Tvær aukasýningar verða á uppsetningu Lab Loka á Stóru börnunum, Með horn á höfði í flutningi GRAL snýr aftur, leikhópurinn Aldrei óstelandi flytur sig í Tjarnarbíó með Lúkas eftir Guðmund Steinsson og loks mun Eldklerkurinn eftir Pétur Eggerz í flutingi Möguleikhússins verða sýndur.

Stóru börnin eftir Lilju Sigurðardóttur fékk mikið lof áhorfenda og gagnrýnenda þegar það var sýnt í nóvember og byrjun desember. Símon Birgisson í Djöflaeyjunni valdi hana sýningu haustsins og að mati Jóns Viðars Jónssonar, gagnrýnanda Fréttablaðsins, var Rúnar Guðbrandsson leikstjóri ársins. Þá valdi Sigurður Valgeirsson hjá Morgunblaðinu hana sem eina af 5 bestu sýningum ársins. Stóru börin verða sýnd 10. og 11. janúar

Hið vandaða fjölskylduleikrit Horn á höfði eftir Berg Þór Ingólfsson og Guðmund Brynjólfsson með tónlist eftir Villa Naglbít, heldur áfram að njóta vinsælda þrátt fyrir langan tíma í sýningum. Sýningin fékk 5 stjörnur í Fréttablaðinu þegar hún var fyrst sýnd. Fjölskyldan getur skemmt sér saman á henni en hún verður sýnd 12. og 26. janúar.

Einleikurinn Eldklerkurinn fékk fjórar stjörnur í Fréttablaðinu, en þar er á ferð vandaður einleikur um Jón Steingrímsson, sem er kunnastur fyrir eldmessuna er hann flutti í miðjum Skaftáreldum. Höfundur handrits og leikari er Pétur Eggerz, leikstjóri Sigrún Valbergsdóttir, leikmynd gerði Rósa Sigrún Jónsdóttir, búninga Thelma Björnsdóttir og hljóðmynd er eftir Guðna Franzson. Eldklerkurinn verður sýndur 12., 19. og 26. janúar.

Lúkas var nýlega frumsýnt í Þjóðleikhúsinu, en flytur sig í Tjarnarbíó í janúar. Verkið fjallar um kúgun og meðvirkni, sem á sér ótal birtingarmyndir hvort sem litið er til einkasambanda tveggja aðila eða kúgunar og meðvirkni heillar þjóðar. Fullt hús stiga hjá Lísu Pálsdóttur á Rás 2. Leikstjóri er Marta Nordal. Lúkas verður sýndur 16., 17., 18., 24. og 25. janúar.