Smygl, ólöglegir innflytjendur og sundurlimuð lík. Er það hjálplegt þegar ungt par vill ættleiða barn?

Hjónin Tom og Linda eiga von á konu frá ættleiðingarstofunni að spjalla við þau og taka út heimilið. Bræður Tom, þeir Dick og Harry vilja ósköp vel en tekst þó að setja allt í uppnám. Leikfélag Kópavogs verður með aukasýningar á tryllingsfarsanum Tom, Dick og Harry eftir feðgana Ray og Michael Cooney nú í janúar. Sýningar eru 16. 18. 20 og 22. janúar.

Ray Cooney hefur verið ókrýndur konungur farsans um áraraðir og leikrit hans þekkja allir. Með vífið í lúkunum, Úti að aka, Beint í æð og Nei, ráðherra, svo einhver séu nefnd, hafa verið sett upp um allan heim á undanförnum áratugum.
Sonur hans Michael Cooney hefur getið sér orð sem handritshöfundur í Hollywood. Hann hefur einnig spreytt sig á leikritaskrifum og er skemmst að minnast farsans Bót og betrun sem Leikfélag Kópavogs setti upp árið 2010.
Í Tom, Dick og Harry taka þeir feðgar höndum saman og útkoman er farsi af allra bestu gerð.

Níu leikarar taka þátt í sýningunni sem leikstýrt er af Herði Sigurðarsyni. María Björt Ármannsdóttir sér um leikmynd, búninga og leikmuni og Skúli Rúnar Hilmarsson lýsir.

Sýnt er í Leikhúsinu að Funalind 2. Nánari upplýsingar um sýninguna er að finna hér og hér er hægt að kaupa miða.