Einþáttungahátíðin sem haldin var samhliða Aðalfundi BÍL að Húsabakka 20. – 21.maí, var sannkölluð minihátíð. Afar fá félög kusu að taka þátt að þessu sinni, því miður fyrir þá sem mættu og því miður fyrir þá sem eru hrifnir af þessu formi og telja það gera okkar starfi gott. Ástæður fyrir því að svona fá félög tóku þátt eru ábyggilega af ýmsum toga sem ég ætla ekki að fara að tíunda nánar hér, en mér finnst að við eigum að halda ótrauð áfram þó að staðan hafi verið þessi núna. En ég vil henda þeirri hugmynd/spurningu inn í umræðuna, að kannski þarf ekki endilega að hafa 20 eða 30 þætti á svona hátíð, kannski er það árángursríkara, skemmtilegra og gæðameira þegar við höfum færri þætti sem taka styttri tíma í flutningi og enginn þreyttur, hmmmm? En til mikillar gleði fyrir þá sem mættu þá fengum við mjög góða og gæðamikla hátíð, hún var þétt og var flytjendum til mikils sóma og ber að þakka og óska þessum leikfélögum til hamingju. Fyrst sáum við mjög áhugaverða sýningu frá leikklúbbnum Sögu á Akureyri “ Hamslaus “ Meðan að ég horfði á þessa frábæru krakka á sviðinu velti ég því fyrir mér hversvegna krakkar úr þessum hópi koma ekki í skólann, á þing eða taka meiri þátt í okkar starfi. Þau bjuggu til/skrifuðu „Hamslaus“ sjálf með aðstoð frábærs leikstjóra sem var Laufey Brá Jónsdóttir. Leikgleðin var mikil og ég hreifst af henni. Verkið var sterk og dökk ádeila á nútímaþjóðfélag og lífið yfirleitt og maður fann hvað þetta var virkilega satt. Þó að hratt væri farið yfir sögu og ekki farið djúpt í hlutina þá skynjaði og skildi maður vel það sem fram fór og hver meiningin var. Það var alveg magnað að sjá hvað þau unnu sem ein heild og þetta gekk oftast eins og ein lítil vel smurð vél og maður uppgötvaði allt í einu að þetta var búið. Krakkarnir léku öll mjög vel en ég verð þó að minnast á Jóhönnu Völu sem lék aðalhlutverkið “ Kristjönu“. Þar er framtíðarleikkona á ferð. Hún gerði þetta mjög vel, það geislaði af henni og hún, þetta ung virtist einhvern veginn hafa yfir mikilli leikreynslu að ráða.
Svo voru það Kleinurnar hennar Tótu, Þórunnar Guðmundsdóttur, alveg fantavel skrifaður texti og nú bíður maður eftir stóru verki eftir hana sem verður sett upp í atvinnuleikhúsunum. Leikstjórnin var hófleg en góð en kannski sé ég það nú þegar ég horfi á þetta í annað sinn að kannski hefði mátt sýna meiri djörfung á sumum sviðum. Þarna er leikstjórinn að leikstýra sínu fólki, eftir hans fólk, sem hann hefur leikið með og leikstýrt hundrað sinnum eins og börnin segja og kannski verður ákveðinn bragur á slíkri sýningu þar sem þú þekkir og treystir 100% þeim sem þú vinnur með, ég er ekki að meina neitt stórt en smá pæling fyrir Hugleiksfjölskylduna. Ég er ekki að segja að þau eigi ekki að sjá um hlutina sjálf heldur er ég að meina að með 3 af 10 bestu áhugaleikurum á landinu á sviðinu og einn af bestu leikstjórunum þá hefði maður kannski viljað sjá meira og meiri djörfung, sjá gengið lengra með aldeilis frábærar hugmyndir. En hvað um það Kleinurnar eru frábærar og ég sé það fyrir mér að ef fleiri komast á “ Kleinubragðið “ þá eru þetta þættir sem eiga eftir eð verða sígildir.
Leikfélag Kópavogs var næst á svið. Nú kom snilldarhugmynd í verkinu “ Hinir gullnu bogar hugrekkisins “ Verkið var unnið út frá teiknimyndarseríu. Hrund Ólafsdóttir er eins og Þorgeir afar góður leikstjóri,ef hún tekur að sér verk þá erum við örugg með að við fáum það besta úr því verki sem hún vinnur með. Það var gaman að sjá leikarana fara á kostum, hvert hlutverk hentaði hverjum mjög vel og ábyggilega góð undirbúningsvinna þar að baki þ.e.a.s hver persóna hafði bakgrunnssögu sem maður fann fyrir. Nú hef ég séð Huld, Helga Róbert og Einar leika oft áður. Huld snerti mig mikið þegar hún lék í stuttverki etir Ylfu Mist í Leiklistarskólanum að Húsabakka sem ég man ekki alveg hvað heitir en snjór kom við sögu. Þar lék hún óaðfinnanlega. Huld er leikkona ( fyrirbæri ) sem þyrfti að prófa að ganga lengra. Helga Róbert sá ég fara á kostum í stuttum þætti sem var sýndur í Hrísey og var eftir Hannes Blandon og ég man að Einar lék mjög vel í þætti sem Toggi leikstýrði hjá LK. En þarna mætti LK með nýtt fólk, þ.e.a.s fólk sem ég hef ekki séð mikið af áður og það er ljóst að Hörður er meðvitað að byggja upp mjög sterkan leikhóp sem verður tlbúinn að takast á við hvað sem er. Jónas, Sara og Gísli voru góð og Jónas átti dúndur leik í Jóni Jónssyni…ég bíð spenntur eftir að sjá meira af LK.
Hugleikur átti næsta útspil. “ Af hverju láta fuglarnir svona ? “ hvað getur maður sagt….dásamlegur þáttur eftir Ylfu Mist Helgadóttur. Það var gaman að sjá þau Tótu og Togga leika í þessum þætti af því að maður sér þau oftar hinum megin við borðið að skrifa, leikstýra eða semja eða flytja tónlist. Þau léku þetta óaðfinnanlega að mínu mati og leikstjórnin var afar næm og skilningur hans á verkefninu var góður og hóflega tilfinninganæmur þetta var gott dæmi um hvernig á að halda sér á línunni.
Áfram með smjörið næst sáum við “ Listina að lifa “ eftir framtíðarleikskáldið Sigríði Láru Sigurjónsdóttur , Sigga Lára þarf að gefa sé meiri tíma til að skrifa og ná að komast á það skrið sem hún þarf þá má Þorvaldur Þorteinssson vara sig. Þessi þáttu hennar var ekki sá besti sem ég hef séð, skemmtileg pæling og kannski var hugurinn kominn lengar heldur en það sem hún náði að setja á blað. Fersk og djörf hugmynd leikstjórans Þorgeirs Tryggvasonar að láta þetta gerast að mestu í risasmábarnableyjurólum var frábær og gaman að sjá hve mikið var lagt í þetta, Júlía Hannam, Hrefna Friðiksd og Þórarinn Stefánsson nýliði Hugleiks léku vel og fóru vel með það sem fyrir þau var lagt. Mér fannst það mikil snilld að geyma props og annað sem þurfti að nota í búningnum/bleyjunni. Það var líka gaman að þetta var ekki mjög Hugleikst. En það var samt eitthvað sem vantaði í heildina þannig að ég hefði fullkomlega gaman af þessum þætti.
L.K átti næstu snilldarhugmynd í “ Biðstöðvartvíleik“ Harold Pinters sem Hörður og Huld aðstoðuðu hann við að skrifa. Frábær hugmynd að leika hann tvisvar fyrst bara með einni leikkonu þar sem hún talaði við fólk í biðröð og maður var ekki alveg viss um hvað var í gangi….síðan kom fólkið sem var í biðröðinni og hún fór með þetta aftur og þá fékk maður nýja sýn, þetta kenndi manni að álykta ekki fyrr en maður veit allan sannleikann, góð hugmynd fínn leikur og gaman sjá þetta fæðast.
Formaður L.K er Hörður Sigurðsson ég hef smátt og smátt áttað mig á því að Hörður,hvort sem það er eftir hann eða leikstýrt af honum þá lætur hann aldrei neitt frá sér nema að það sé vel æft, það sé gott og félaginu til mikils sóma. Auðvitað á þetta við um fleiri, en kannski er maður að átta sig betur á þessu með Hörð og hans skoðanir á hátíðum stuttum og löngum hann vill hafa gæðin í fyrirrúmi og leggur mikla áherslu á að þetta sé hreyfingunni til sóma.
Síðasta þátturinn var frá Freyvangsleikhúsinu og góð tilbreyting frá Hugleik og Leikfélagi Kópavogs. Ingólfur Þórsson og Dýrleif Jónsdóttir léku í þáttinn „Í vorsólinni“ eftir Helga Þórsson, bróður Ingólfs. Helgi leikstýrði einnig. Þau völdu að leika niðri á gólfinu en ekki uppi á sviðinu með ljósin kveikt þar sem þetta átti að vera framboðsfundur og þau vildu sjá fólkið. Ég hugsa að það hefðir verið sterkara fyrir þau að leika á sviðinu, Þau fóru ágætlega með beittan texta Helga þar sem hann skaut föstum skotum á ýmislegt sem sem grasserar í þjóðfelaginu í dag. Ingólfur og Dýrleif eru kraftmiklir og góðir leikarar, en þátturinn hefði þurft meiri æfingu.
Júlíus Júlíusson