Leikfélagið Grímnir og leikdeild Grunnskóla Stykkishólms sýna nú rokkóperuna Jesus Christ superstar eftir Tim Rice og tónlistin er eftir Andrew Lloyd Webber. Í íslenskri þýðingu Níelsar Óskarssonar hefur þetta verk hlotið hafnið Jesús Guð Dýrlingur. Það þarf mikinn metnað og kjark til að takast á við slíkt verk í rúmlega þúsund manna byggðarlagi. Ég gerði mér ferð í Stykkishólm til að sjá þessa sýningu.

Þegar ég gekk í salinn sést ekkert annað en spýtnahrúga á gólfinu. Skyndilega birtist hópur ungmenna og ræðst á hrúguna og hljómsveit byrjar að spila. Ungmennin virðast taka hvert sína spýtu og ganga ákveðnum skrefum með hverja þeirra á sinn stað. Smátt og smátt byggja þau umgjörð utan um þessa miklu sögu. Hljómsveitin er á sviði bakvið búin eins og englar sem rokka á brún himnaríkis. Fram á sviðið ryðst Júdas Ískaríot í rauðri skyrtu. Þvílík rödd, þvílíkt öryggi. Þetta er bara rétt að byrja.

Eftir því sem verkinu vindur fram sé ég hverskyns snilld þessi uppsetning er. Leikstjórinn Guðjón Sigvaldason hefur þarna unnið einstakt afrek, allt smellur saman og aldrei er nokkur persóna óviss um hvað á að gera. 46 leikarar hafa alltaf eitthvað fyrir stafni. Maður fær það á tilfinninguna að maður sé staddur í iðu stórra atburða einhversstaðar í stórri borg á óræðum tíma. Yfir tuttugu ungmenni gefa umhverfinu líf án þess að trufla á nokkurn hátt atburðarásina eða framvindu verksins. Þetta óvenjulega leiksvið minnir á markaðstorg, musteri og Golgata allt í senn og lýsingin undirstrikar svo allt þetta.

Það er mjög erfitt að fjalla sérstaklega um frammistöðu einstakra leikara því hún er afskaplega góð hjá hverjum einasta. Það verður þó að geta þess að vel hefur valist í afar erfið hlutverk og erfitt að tína þar nokkurn út. Það væri þó ósanngjarnt að nefna ekki fábæra frammistöðu þeirra Matthíasar Þorgrímssonar í hlutverki Júdasar og Lilju Margrétar Riedel í hlutverki Maríu Magdalenu að maður tali nú ekki um frammistöðu Óla Steinars Sólmundarsonar í hlutverki Krists. Fyrst hafði ég þó efasemdir um að Óli Steinar mundi valda þessu hlutverki. Hans snilld er einmitt sú. Hann vex stig af stigi gegnum verkið í fullu samræmi við söguna. Mér þóttu snilldartaktar hans ná hámarki þegar hann hreinsar út úr samkunduhúsinu. Jesús Kristur er mættur, afl og vald er túlkað með þeim hætti að ógleymanlegt er.

Ég ætla að neita mér um að segja frá sýningunni í smáatriðum, því þetta er leiksýning sem allir verða að sjá. Lokakaflinn er svo stórkostlegur að maður á ekki til orð. Ég hvet fólk til að láta þessa stórkostlegu sýningu ekki fram hjá sér fara. Hvaða leikhús veraldarinnar sem er getur talið sig fullsæmt af þessari uppsetningu.

Ingi Hans Jónsson, alveg bit