Enskt hádegisleikhús mun standa yfir í tvo daga á Kaffi Hljómalind nú í byrjun september. Er þetta í fyrsta skipti sem leikritið Elskendur – Sigurvegarar eftir Brian Friel er sýnt hér á landi. Leikendur eru Melkorka Óskarsdóttir og Adam Slynn sem bæði útskrifuðust úr enska leiklistarskólanum LAMDA á síðasta ári.

 

Verkið fylgir ungu írsku pari á fallegum sumardegi árið 1966 þegar aðeins fjórir dagar eru til stefnu fyrir lokapróf. Framtíðin er þeim einkar hugleikin þar sem þau eiga von á barni og eru um það bil að fara að gifta sig. Leikstjóri er Joseph Blatchley. Sýningin fer fram á ensku og tekur um 30 mínútur í flutningi svo að það hentar vel að grípa sér kaffibolla eða samloku á Kaffi Hljómalind og njóta ókeypis leikhúss.

Sýningar verða kl. 12.30 föstudaginn 4. og laugardaginn 5. september.