Fáþjóðlega stuttverkahátíðin Margt smátt verður haldin í Félagsheimili Seltjarnarness þann 10. október nk. Umtalsverðar breytingar hafa orðið á hátíðinni frá fyrri hátíðum, sú mest afgerandi er staðsetning hennar en vegna þess hve þétt Borgarleikhúsið er bókað reyndist ekki unnt að koma henni fyrir í sýningarplani þar. Hin nýbreytnin er að á hátíðinni verða 3-5 færeyskar sýningar og má því með sanni kalla hana „fáþjóðlega“

Hátíðin verður sett kl. 13.30 og sýningar hefjast kl. 14.00 og standa til 17.00. Að þeim loknum munu gagnrýnendur fjalla um sýningar hátíðarinnar. Hátíðin er opin öllum aðildarfélögum Bandalags íslenskra leikfélaga og Meginfélags áhugaleikfélaga í Færeyjum. Stefnt verður að því að tímalengd hátíðarinnar í heild verði ekki meira en 3 klst. með tveimur stuttum hléum og að hver sýning sé að hámarki 15 mínútur. Ef mjög margar umsóknir berast og séð verður fram á að tímaramminn haldi ekki, verða þau félög sem sækja um að koma með margar sýningar á hátíðina beðin um að fækka þeim.

– Farið er fram á að allur umbúnaður sýninganna verði í algjöru lágmarki og tæknikröfur sem allra minnstar svo skiptingar geti gengið fljótt fyrir sig.

– Sækja þarf um fyrir 15. september á sérstökum umsóknareyðublöðum sem hægt að hala niður hér af síðunni. Þann 25. september verður svo opinberað hvaða þættir verða sýndir á hátíðinni.

– Leikarar, leikstjórar, tæknimenn og aðrir aðstoðarmenn leikhópanna fá frítt inn á hátíðina. Miðaverði fyrir almenna áhorfendur verður stillt í hóf.

– Tveir gagnrýnendur munu fjalla um sýningar hátíðarinnar og sú gagnrýni mun birtast á Leiklistarvefnum. Hátíðin verður einnig tekin upp á myndband og leikskrá verður útbúin.

– Samvera hátíðargesta verður í Félagsheimilinu um kvöldið að hátíð lokinni. Þar verður opinn bar og hægt verður að fá eitthvað létt að borða og flutt verða skemmtiatriði.

Öll aðildarfélög Bandalagsins eru eindregið hvött til að senda sýningu á hátíðina og/eða skemmtiatriði á samveruna.

Hér er hægt að sækja umsóknareyðublað

{mos_fb_discuss:3}