Leiklistarfélag Seltjarnarness frumsýndi leikritið Litli Kláus og Stóri Kláus í Félagsheimili Seltjarnarness laugardaginn 29. apríl í leikstjórn Bjarna Ingvarssonar. Leikritið er eftir Lisu Tetzner og byggir á sögu H.C. Andersen. Sesselja Traustadóttir brá sér á sýninguna.
Litli Kláus og Stóri Kláus
Eftir Lisa Tetzner eftir sögu H.C. Andersen
Leikstjóri Bjarni Ingvarsson
Frumsýnt 29. apríl
Sýningar í Félagsheimili Seltjarnarness
Leiklistarfélag Seltjarnarness frumsýndi leikritið Litli Kláus og Stóri Kláus í Félagsheimili Seltjarnarness laugardaginn 29. apríl í leikstjórn Bjarna Ingvarssonar. Leikritið er eftir Lisu Tetzner og byggir á sögu H.C. Andersen.
Leiklistarfélag Seltjarnarness er eitt af yngri félögunum sem starfa innan Bandalags íslenskra leikfélaga og er þetta sjötta verkefni félagsins. Þetta er þriðja sýningin sem Bjarni leikstýrir hjá félaginu.
Sagan er full af átökum á milli valdhafa og þeirra sem minna mega sín. Stóri Kláus á allt og stjórnar öllu. Hann er að springa úr græðgi og í sögunni er ekkert til varnar þeim fátæku. Hann drepur hesta annarra og rekur menn sem hegða sér ekki nákvæmlega eftir hans vilja. Að lokum er það græðgin sem steypir honum í glötun og fólkið fær nýjan valdsmann sem vonandi færir þeim réttlátari kjör – eða gerir hann það? Svo langt fór H.C. Andersen ekki með lesendur sína. Ekki frekar en í öðrum ævintýrum.
Bjarni vinnur sýningu með blönduðum leikarahóp. Þeir yngstu rétt um 10 ára aldur og þeir elstu komnir vel á efri ár. Hópurinn var nokkuð jafn á sviðinu og leystu sitt með sóma. Askur Kristjánsson fór vel með hlutverk Litla Kláusar og sömuleiðis hafði ég nokkuð gaman af Guðrúnu Ágústsdóttur í hlutverki Bóndakonunnar. Senan heima hjá bóndanum var með þeim bestu í sýningunni. Þá var og hlutverk Halta Hans ágætlega unnið af Agnesi Drífu Pálsdóttur. Sviðið teygði anga sína um húsið og skemmtilegast var þegar markaðurinn opnaðist fyrir áhorfendum. Ágætis uppbrot þar.
Með mér á sýningunni voru tvö born, 9 og 13 ára. Yngra barnið var mjög ánægt með sýninguna og fannst hún bæði skemmtileg og vel heppnuð. Öll framvinda var líka rækilega kynnt áhorfendum og gerði að yngri born áttu auðveldara að fylgjast með í jafn langri sýningu og Litli Kláus og Stóri Kláus eru. Eldra barnið hins vegar taldi sig aðeins vaxinn upp úr “svona leikritum”, eins og hann sagði sjálfur. Taldi að það væri meira gert fyrir aðeins yngri krakka.
Í heildina séð var vinnan við sýninguna alúðleg og hlý en ég var því miður ekki nógu ánægð með alla útkomuna. Leiksýningin var nokkuð long og mér fannst skorta á að leikhópurinn færi á flug sem hópur. Leikmyndin var raunsæ og margt fallegt við hana. Engu að síður vann hún ekkert sérstaklega vel með sýningunni, einkum með umfang hennar í huga. Lýsingin var falleg á bakgrunninum en stundum vantaði betri lýsingu á leikarana. Við viljum endalaust vera að glápa í augun á þeim og ef þau verða ósýnileg vegna skugga er eins og skugginn nái inn á samband áhorfandans og leikarans.
Samt vil ég leyfa mér að gleðjast fyrir hönd Leiklistarfélagsins á Seltjarnarnesi. Þau segja okkur að þau séu komin til að vera. 6 uppsetningar á jafn mörgum arum er býsna gott og gestgjafar aðalfundar Bandalagsins sl. helgi! Til hamingju með góða vinnu, öfluga stjórn og gott folk um borð.
Sesselja Traustadóttir