Leikfélag Hornafjarðar í samvinnu við Framhalds- og Tónlistarskóla staðarins hefur undanfarið sýnt söngleikinn Gauragang eftir Ólaf Hauk Símonarson í lekstjórn Harðar Sigurðarsonar. Jón Garðar Bjarnason brá sér á sýningu og skrifaði um upplifun sína í fréttablaðið Eystrahorn. Skrif Jóns Bjarna eru birt hér á Leiklistarvefnum með góðfúslegu leyfi.
Leikfélag Hornafjarðar
Gauragangur eftir Ólaf Hauk Símonarson
Leikstjóri Hörður Sigurðarson
Tónlistarstjóri Jóhann Morávek
Sýnt í Mánagarði

(Birt með góðfúslegu leyfi Eystrahorns.)

ormur_kennarar.jpgLeikfélag Hornafjarðar, í samvinnu við Tónskólann og FAS, hefur nú til sýninga í Mánagarði leikverkið Gauragang, eftir Ólaf Hauk Símonarson. Að beiðni Eystrahorns fór undirskrifaður á sýningu í þeim tilgangi að ,,gagnrýna” eða í það minnsta láta í té einhverja skoðun um verkið á hornfirskum fjölum. Ekki var hægt að neita slíkri beiðni, en það strax tekið fram að ekki yrði um neina linkind að ræða ef þörf væri á.

Fimmtudaginn, 30.03.2006, var stefnan tekin á Mánagarð, og engar sérstakar væntingar gerðar til verksins enda reynt að mæta því sem ætti fyrir augu að bera með opnum huga. Að sækja leikhús er ákveðin upplifun, ekki bara við að setjast og njóta verksins heldur einnig þegar þú stígur inn í anddyri og opnað er fyrir gestum inn í sal. Verður að segjast að Mánagarður er góður heim að sækja. Rúmgott anddyri, nóg af fólki í afgreiðslu og aðstaða fyrir fólk til að setjast niður áður en leiksýning hefst, og vita af lokaðri hurð þar sem ævintýrið á að gerast.

Ekki var laust við að fiðringur færi um mig þegar dyrnar að salnum voru opnaðar, kannski af því að ég ætti að taka verkið út, og jókst bara tilhlökkunin er inn var komið. Þetta var eins og að koma inn í leikhús. Vel heppnaður salur, og greinilegt að vinna hefur verið lögð í að taka á móti gestum. Ekki voru leiktjöld fyrir sviðinu, en dauf ljós lýstu upp hluta af leikmyndinni og gerðu mann forvitinn um að sjá meira. Áhorfendasæti á misháum pöllum, sem ég er mjög hrifinn af, því þannig þarf fólk ekki að horfa á leikverk milli þeirra sem nær sitja.

Leikverkið Gauragangur er sambland af því besta sem hægt er að vonast til að sjá í leikhúsi. Ég viðurkenni að ég segi þetta eftir á. En verkið sjálft gæti gengið á hvaða tímum sem er, þar sem blandað er í kokteil; gríni, söng og drama, á afar mannlegan en jafnframt háðskan hátt, og ætti að geta höfðað til allra.

ormur_linda.jpgÉg verð að segja eins og er. Ég skemmti mér konunglega. Það er það sem leitað er eftir í verki sem þessu, og tókst vel til hjá leikstjóra, leikendum og þeim sem skipulögðu þetta leikverk. Ég varð var við fagmennsku. Leikmyndin einföld og látlaus, en þjónaði á ótrúlega fjölbreyttan hátt. Í raun furða hve mikið er hægt að gera með lítið. Sviðið í Mánagarði er ekki stórt, en var fullnýtt og rúmlega það. Ljósin á sviði skiluðu sínu, hvort sem um var að ræða mánaskin eða dansleik, og bættu upp hógværa umgjörðina.

Leikarar höfðu úr mismiklu að moða, eins og gefur að skilja enda hlutverk misstór. Stóðu sig þó allir með stakri prýði. Mest mæddi á Elvari Braga Kristjánssyni, sem lék hið sjálfhverfa stórskáld og snilling, Orm Óðinsson. En sagan fjallar um þroskaskeið í lífi þess greinda og skemmtilega tilsvaramanns. Steig Elvar ekki feilspor og gæddi persónuna, bæði með útliti og persónuleika, unggæðislegu lífi áttavillts leiðtoga. Þá var hrjúfur rocksöngstíll hans mjög góður, en Elvar var á sviðinu nánast allan tímann, en það ætti ekki að vera jafnauðvelt og sýndist, þar sem sýningin rann í gegn hnökralaus og tímasetningar með þeim hætti að hvergi mynduðust glufur eða hlé. Og fóru menn jafnvel á milli þátta og persóna á miðju sviði, og áttaði maður sig ekki á því að það var að gerast fyrr en leikur hófst að nýju, slík var fagmennskan.

Aðrir leikarar stóðu sig afspyrnu vel, studdu vel við aðalsöguhetjuna, enda virtist ríkja á sviðinu samkennd og traust milli leikenda. Þó verður að segjast eins og er að ákveðin senuþjófur læddist um er hann steig á svið, en Þórður Ingvarsson var óborganlegur sem uppgefinn og úrræðalaus kennari, Arnór Eiðsson. Sýndi hann snilldartakta, bæði í útlitsbreytingu og karaktersköpun, og hjálpuðu meðleikendur á sviði við að búa til umgjörð fyrir hnyttin tilsvör og brandara á þessa mjög svo skemmtilegu persónu.

ormur_halla_ranur.jpgSöngþáttur verksins var þó það sem í enda dags stóð uppúr. Það verður að segjast að hornfirðingar hljóta að eiga Íslandsmet í sönghæfileikum, ef miðað er við hina þekktu höfðatölu. Söngflutningur var til fyrirmyndar. Rósa Dröfn Pálsdóttir og Nanna Halldóra Imsland, stóðu sig frábærlega vel í söngatriðum sínum, bæði í sitthvoru lagi en þó allra best er þær sungu saman, því saman gefa þær hinum sænsku abba-systrum ekkert eftir í samhljómi og gæðum. Þá voru Björn Sigfinnsson og Sigurður Kr. Sigurðsson góðir í söng og leik, og Guðrún Ingólfsdóttir frábær sem jarðbundin einstæð og fráskilinn móðir óuppgötvaðs snillings. Halldór Tjörfi Einarsson sem faðir Óðins, var flottur sem uppi, og virðist þessi maður einhvern veginn hafa sloppið við öldrunargen.

Eina sem truflaði mig í var að hljóðkerfið virtist á stundum vera á yfirsnúningi. Í einstaka lagi yfirgæfði hljómsveitin söngvarana, og glumdi í er lög hófust. Fannst mér þetta þó heldur batna er leið á sýningu, en mætti athuga betur. Kannski um að kenna, litlum sal, en væri vel þess virði að betrumbæta þetta til að söngraddir góðra söngvara njóti sín jafnvel enn betur.

Í lokin vill ég óska aðstandendum sýningarinnar til hamingju og þakka fyrir að einhver taki að sér verkefni sem þessi, en aðilar hafa hér bætt enn einni skrautfjöður við.

Til að draga saman, frábær skemmtun með hæfileikaríku fólki og vel þess virði að eyða einni kvöldstund saman til að njóta.

Jón Garðar Bjarnason