Leikverkið Djúpið verður sýnt í Samkomuhúsinu á Akureyri núna um helgina. Verkið var frumsýnt í Borgarleikhúsinu 5. júní og hlaut einróma lof gagnrýnenda. Aðalhlutverkið leikur Ingvar E. Sigurðsson, og höfundurinn Jón Atli Jónasson leikstýrir. Leikmynd gerir Árni Páll Jóhannsson, tónlist er eftir Hilmar Örn Hilmarsson og lýsingu hannaði Björn Bergsteinn Guðmundsson.
Djúpið er nýr íslenskur einleikur eftir Jón Atla Jónasson. Verkið var heimsfrumsýnt í Skotlandi í apríl sl. og fékk frábærar viðtökur og fjögurra stjörnu leikdóm í The Scotsman. Bátur heldur úr höfn rétt fyrir dögun. Menn ýmist fleygja sér í koju eða halda sér vakandi á sígarettum, kaffi og veltingi. Enginn hefur minnsta grun um hvað er í vændum. Djúpið er frásögn úr íslenskum veruleika sem lætur engan ósnortinn. Þetta er óður til allra þeirra fjölmörgu íslensku sjómanna sem í gegnum aldirnar hafa haldið á djúpið.
Sýningar í Samkomuhúsinu verða sem hér segir:
Fimmtudagur 24. september kl. 20.00
Föstudagur 25. september kl. 19.00
Föstudagur 25. september kl. 21.30