Það fer hver að vera síðastur að sjá Leg, söngleik Hugleiks Dagssonar og tríósins Flís, í Þjóðleikhúsinu. Sýningum lýkur þann 17. nóvember nk. en uppselt er á næstu tvær sýningar. Örfá sæti eru laus á síðustu sýninguna og hefur verið brugðið á það ráð að efna til aukasýningar kl. 16 þann sama dag.
Yfir 12.000 gestir hafa þegar komið á sýninguna sem fékk einnig afbragðsdóma hjá gagnrýnendum. Söngleikurinn Leg hlaut ennfremur 12 tilnefningar til Grímuverðlaunanna í vor.
Verkið er kröftug ádeila í anda höfundarins, Hugleiks Dagssonar, sem síst er þekktur fyrir teprulegan húmor. Viðfangsefnið er mannleg náttúra í sinni dramatískustu mynd en í framtíðarsýn verksins er gert stólpagrín að okkar nútímabrölti, hvort heldur útrásarhneigð eða uppeldisaðferðum. Aðalpersónan er nítján ára ófrísk gelgja úr Garðabæ, leikin af Dóru Jóhannsdóttur en aðrir leikarar í sýningunni eru Atli Rafn Sigurðarson, Edda Björg Eyjólfsdóttir, Kjartan Guðjónsson, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Jóhannes Haukur Jóhannesson, Friðrik Friðriksson og Halldóra Geirharðsdóttir. Leikstjóri sýningarinnar er Stefán Jónsson.
Hressilegur tónlistarbræðingur Flís-tríósins er ekki síður til þess fallinn að hrista upp í áhorfendum. Þeir félagar hlutu Grímuverðlaun fyrir sína hlutdeild sem og Þórunn Elísabet Sveinsdóttir búningahönnuður. Tónlistin er fáanleg á hljómdiski. Nánari upplýsingar um sýninguna má finna á heimasíðu Þjóðleikhússins, www.leikhusid.is.
{mos_fb_discuss:2}