Fjögur tilhlökkunarefni, eftir á að hyggja.
Í haust birti ég lítinn lista yfir viðburði sem ég hlakkaði til á leikárinu sem í hönd fór. Nú er langt liðið á fyrri helming þess og rétt að fara stuttlega yfir þau tilhlökkunarefnanna sem hægt er að segja eitthvað um hvort ræst hafi. Þeir sem vilja rifja upp listann smelli hér. Þögnin í Leikfélagi Íslands Það var af einberum stráksskap sem ég setti klausuna um Leikfélag Íslands inn. Daginn eftir að listinn birtist bárust fregnir af bágri fjárhagsstöðu félagsins, svo ekki kom þögnin til af góðu. Vonandi rætist úr hjá þeim fljótlega og vonandi tekst þeim að halda sér “Commercial” og reka sitt leikhús tiltölulega styrkfrítt, þó eitthvað verði að sníða stakkinn þrengra en í góðæðinu miðju. Í markaðsmennskunni felst sérstaða þeirra og eins og við frændur þeirra í Hugleik vitum þá er sérstaða dýrmætasta eign hvers leikhúss. Túskildingsóperan Sló algerlega í gegn hjá Nemó og Viðari, enda frábær skemmtun og snilldartaktar margir, bæði hjá leikhópnum og í makalausri raddskrá Weills. Um leikverkið er aðra sögu að segja, mikið ógurlega leiðist mér leikskáldið Brecht (og fröken Hauptmann þá líka). En samt, hann virðist efla leikhúsfólk til afreka sem bæta upp leiðindin í leiktextanum. Þetta sást í Smáborgarabrúðkaupi Viðars og Leikfélags Selfoss, ekki síður í Kákasuskrítarhring Þjóðleikhússins og ekki síst í brjálaðri og koluppseldri sýningu Nemendaleikhússins núna. Töfraflautan Í tilhlökkunarpistlinum lýsti ég Töfraflautunni sem dramatúrgískri martröð. Af sýningunni að...
Sjá meira


