Í tilefni af fyrirhugaðri einþáttungahátíð gróf ég lítillega í heilabörkinn og rifjaði upp nokkra einþáttunga sem teljast mega athygliverðir. Ég held mig við topptíuformið, en auðvitað slæðast fleiri titlar með í forbífartinni.

Drottins dýrðar koppalogn eftir Jónas Árnason. Brilljant þáttur, kannski besta verk Jónasar, en útheimtir helling af köllum. Táp og fjör eftir sama kall er líka gott.

Skemmtiferð á vígvöllinn eftir Arrabal. Hlægilegt og grimmt lítið leikrit, eins og títt er um verk þessa spænska absúrdista. Svo má líka kíkja á Bæn, eftir sama höfund.

Löng jólaveisla eftir Thornton Wilder. Frumleg grunnhugmynd, frábær útfærsla: bráðskemmtilegt verk. Ekki endilega jólaleikrit þrátt fyrir nafnið.

Hlæðu, Magdalena, Hlæðu eftir Jökul Jakobsson. Jökull skrifaði fullt af flottum einþáttungum og þessi er nefndur sem gott dæmi. Stutt, fyndið, og all-óhugnanlegt verk fyrir tvær leikkonur.

Björninn eftir Anton Tsjekhov. Alger snilld eins og við var að búast úr skurðstofu dr. Tsjekhovs. Bónorðið er líka gott, og einleikurinn ótrúlegi Um skaðsemi Tóbaksins.

Á rúmsjó eftir Slawomir Mrozek. Þrír menn á bát verða að táknmynd fyrir mannfélagið allt, valdabaráttu, flokkadrætti og ofbeldi, dulið og nakið.
Leggur einhver í þetta stykki eftir ógleymanlega sýningu Lettanna á Akureyri í fyrra?

Beðið eftir Lúdó eftir Hjörleif Hjartarson. Skifað í innblæstri frá höfundasmiðju í Leiklistarskóla Bandalagsins í Svarfaðardal og gott eftir því. Örstutt en þeim mun dýpra og bíður upp á endalausa túlkunarmöguleika.

Vögguþula eftir Samuel Beckett. Stórmeistari smáverkanna verður að vera með á svona lista, og þetta stykki er ágætis dæmi um list hans. Síðasta segulband Krapps kemur líka upp í hugann.

Jóðlíf eftir Odd Björnsson. Need I say more?

Hugleikur. Einþáttungasmíð er blómlegur heimilisiðnaður í því kotinu og skulu tilgreind nokkur dæmi, ekki algerlega af handahófi: trúardramað Miðvikudagur í helvíti eftir Ármann Guðmundsson og siðferðisádeilan Lausung við lygi eftir sama höfund. Unnendur raunsæisins ættu að kíkja á Son og elskhuga eftir Sigrúnu Óskarsdóttur eða Á sama bekk eftir Sævar Sigurgeirsson. Þó Þórunn Guðmundsdóttir þræti fyrir það þá er þáttur hennar, Dómur um dauðan hvern, prýðilegur fulltrúi fáránleikastefnunnar. Fyrir þá sem vilja meira kynlíf og skefjalausara ofbeldi tilreiðir Árni Hjartarson síðan tryllirinn Geirr Guma.

Þorgeir Tryggvason