Pólitísk ádeila í Borgarleikhúsinu
Ágætur leikhúsmaður segir á bloggsíðu sinni: „Opinions are like Assholes. Everybody’s got one“. Það eru orð að sönnu og það er heldur enginn hörgull á skoðunum í leikverkinu American Diplomacy sem Hið lifandi leikhús frumsýndi í Borgarleikhúsinu fimmtudagskvöld 24. febrúar. Meira að segja bregður fyrir rassgati undir lok sýningar og má kannski einhvern hátt má segja að það sé lýsandi fyrir sýninguna og styður kannski fyrrnefnda kenningu enn frekar. Í kynningu á verkinu American Diplomacy sem er skrifað af leikstjóranum Þorleifi Erni Arnarsyni, er því lýst sem pólítískum gamanleik sem tekur á málefnum líðandi stundar. Vettvangurinn er Stjórnarráð Íslands þar sem landbúnaðarráðherrann Guðbjörn Halldórsson, tekst á við nýtilkomið hlutverk sitt sem eini eftirlifandi ráðherra ríkistjórnarinnar, í kjölfar þess að eitrað er fyrir ríkisstjórninni eins og hún leggur sig í matarveislu í bandaríska sendiráðinu. Ráðherrann sem skyndilega er orðinn æðsti maður þjóðarinnar nýtur „aðstoðar“ einkaritara og sérlegs aðstoðarmanns forsætisráðherra við að stýra þjóðarskútunni í þeim ólgusjó alþjóðlegra hryðjuverka og styrjalda sem heimurinn hefur velkst í undanfarin misseri. Þá eru samskipti íslenskra stjórnvalda við Bandaríkin mjög til umfjöllunar í verkinu. Ekki er ætlunin að segja nánar frá söguþræðinum enda er hann sannast sagna frekar rýr. Í upphafi eru helstu persónur kynntar til sögunnar en síðan gerist nákvæmlega ekki neitt fram að hléi. Engin framvinda er í sýningunni fyrripartinn, ekkert plott í gangi, aðeins merkingarlítil samtöl aðalpersónanna sem virðast án sjánlegs tilgangs...
Sjá meira