Bætt hefur verið við aukasýningum á aðventuleikriti Þjóðleikhússins, Leitinni að jólunum, vegna frábærrar aðsóknar. Troðuppselt var á sýningarnar í desember og því er bætt við sýningum miðvikudaginn 17. desember og fimmtudaginn 18. desember. Aðventusýning þessi orðin fastur liður í jólaundirbúningi margra. Þetta er í fjórða sinn sem verkið er sett upp í Þjóðleikhúsinu en það hefur notið mikilla vinsælda og hlaut meðal annars Grímuverðlaunin sem barnasýning ársins 2006.  

Tveir skrýtnir og skemmtilegir náungar taka á móti litlum leikhúsgestum í andyri Þjóðleikhússins. Leikararnir Arnbjörg Hlíf Valsdóttir og Ólafur Egill Egilsson leika Raunar og Reyndar sem eru hreint ekki sammála um hvort jólasveinarnir séu til. Með þeim í för eru tveir hljóðfæraleikarar og saman leiða þeir börnin með leik og söng um leikhúsið. Börnin ferðast inn í ævintýraveröld jólanna og sjá leikþætti um jólin í gamla daga og í nútímanum. Árni Egilsson hefur samið ný lög við Jólasveinavísur Jóhannesar úr Kötlum sem fléttast inn í sýninguna. Höfundur verksins er Þorvaldur Þorsteinsson en leikstjóri er Þórhallur Sigurðsson

Sýningin tekur tæpan klukkutíma. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðunni www.leikhusid.is.

{mos_fb_discuss:2}