Ævintýrið um Augastein var upphaflega samið á ensku og frumsýnt í Drill Hall leikhúsinu í London 2002, en ári síðar var verkið frumflutt í íslenskri útgáfu í Tjarnarbíói. Þá kom ævintýrið einnig út á bók, sem notið hefur mikilla vinsælda æ síðan.
Verkið byggir á sögunum um sveinstaulana þrettán, syni Grýlu og Leppalúða, sem áttu það til að hrella fólk um jólaleytið. En í ævintýri leikhópsins er það drengurinn Augasteinn sem allt snýst um. Hann lendir fyrir tilviljun í höndum jólasveinanna hrekkjóttu, sem vilja ólmir taka hann að sér, en þegar Grýla kemst á snoðir um tilvist hans æsist leikurinn. Ná jólasveinarnir að bjarga Augasteini úr klóm Grýlu og jólakattarins áður en jólin ganga í garð?
Felix Bergsson skrifaði Ævintýrið um Augastein í samstarfi við Kolbrúnu Halldórsdóttur leikstjóra og Helgu Arnalds brúðulistamann. Svo sem áður sagði þá hefur Felix fram að þessu leikið öll hlutverkin í sýningunni en nú hefur Orri Huginn Ágústsson tekið við keflinu. Brúður og leikmynd eru eftir Helgu Arnalds, lýsingu hannaði Jóhann Bjarni Pálmason og tónlistina útsetti Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson fyrir Háskólakórinn undir stjórn Hákons Leifssonar. Hljóðmynd verksins er unnin af Sveini Kjartanssyni. Leikstjóri er Kolbrún Halldórsdóttir.