Leikfélag Húsavíkur æfir verkið Ávaxtakörfuna um þessar mundir. Verkið er eftir Kristlaugu Maríu Sigurðardóttur og tónlistin er samin af Þorvaldi Bjarna Þorvaldssyni. Margir þekkja Ávaxtakörfuna þar sem aðeins ávextir mega búa en þó leyfist einu litlu jarðarberi að dvelja þar, með því skilyrði að sjá um að allt sé hreint og fínt í körfunni. En þegar gulrót birtist allt í einu í körfunni fer allt á annan endann.

Alls taka níu leikarar þátt í sýningunni og fjögurra manna hljómsveit. Þarna eru á ferðinni bæði þaulreyndir leikarar og tónlistarmenn og aðrir sem eru að stíga sín fyrstu spor á sviðinu í gamla Samkomuhúsinu. Leikstjórinn, Valgeir Skagfjörð er að vinna með Leikfélagi Húsavíkur í fyrsta sinn. Frumsýning verður laugardaginn 4. mars.