Aðalfundur Leikfélags Reykjavíkur var haldinn fyrir skömmu. Á fundinum lét Inga Jóna Þórðardóttir af formennsku í félaginu, sem hún hefur gegnt í rúm níu ár. Í máli hennar kom fram að aðsókn hafi aldrei verið meiri en undanfarin ár og að síðasta rekstrarár hefði verið það stærsta í sögu félagsins, en þá fór veltan í fyrsta sinn yfir milljarð króna. Starfsmenn Borgarleikhússins eru að jafnaði 130 talsins. Rekstrarframlag borgarinnar nam um 45% af veltu og sjálfsaflafé 55%. Hærra hlutfall sjálfsaflafjár er vandfundið hjá menningarstofnunum, hvort sem er hér á landi eða í nálægum löndum.

Afgangur varð af rekstri félagsins á liðnu starfsári. Formaðurinn þakkaði þann glæsilega árangur sem náðst hefur í rekstri Borgarleikhússins hinum einstaka og samstillta hópi sem starfar í húsinu undir traustri forystu leikhússtjórans, Magnúsar Geirs Þórðarsonar. Greint var frá því að á liðnu starfsári var gerður nýr samningur við Reykjavíkurborg um rekstur Borgarleikhússins. Hann gildir til ársloka 2015 með heimild til framlengingar um þrjú ár.

Auk formanns gáfu þau Theódór Júlíusson, varaformaður, Edda Þórarinsdóttir og Þórólfur Árnason ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarstarfa. Öll hafa þau starfað í stjórninni um árabil. Voru stjórnarmönnum færðar þakkir aðalfundar fyrir framúrskarandi framlag sitt til félagsins en fram kom í máli nokkurra fundarmanna að stjórnin hefði stýrt félaginu á miklu blómaskeiði. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var kjörinn formaður til næstu þriggja ára. Aðrir í stjórn eru Eggert B. Guðmundsson, varaformaður, Ingibjörg Elsa Guðmundsdóttir, ritari, Ármann Jakobsson og Hilmar Oddsson meðstjórnendur. Í varastjórn sitja Bessí Jóhannsdóttir og Finnur Oddsson.

Á aðalfundinum voru átta einstaklingar kjörnir heiðursfélagar Leikfélags Reykjavíkur. Fráfarandi stjórn gerði tillögu til aðalfundar þar sem haft var að leiðarljósi að horfa til þeirrar breiddar í reynslu og verkum, sem nauðsynleg er hverju leikhúsi. Eftirfarandi einstaklingar voru kjörnir heiðursfélagar LR: Aðalheiður Jóhannesdóttir, yfirleikmunavörður, Guðmundur Guðmundsson – GG, fv. sýningarstjóri, Margrét Helga Jóhannsdóttir, leikkona, Ragnar Hólmarsson, fv. forstöðumaður smíðaverkstæðis, Stefán Baldursson fv. leikhússtjóri og leikstjóri, Tómas Zöega, fv. framkvæmdastjóri, Þorleikur Karlsson, fv. forstöðumaður leikmundadeildar og Þorsteinn Gunnarsson, fv. leikhússtjóri, leikari, leikstjóri og arkitekt. Í tæplega 117 ára sögu Leikfélags Reykjavíkur hafa 45 einstaklingar verið kjörnir heiðursfélagar.