Þjóðleikhúsið býður heyrnarlausum og heyrnarskertum á öllum aldri að njóta hinnar bráðskemmtilegu sýningar leikhússins á Óvitum eftir Guðrúnu Helgadóttur, með táknmálstúlkun. Næstkomandi sunnudag verður sérstök sýning með táknmálstúlkun á Óvitum, í samstarfi við Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra. Sýningin hentar einnig öðrum áhorfendum, en táknmálstúlkunin fer þannig fram að tveir túlkar eru hvor sínu megin við sviðið og túlka sýninguna jafn óðum. Þjóðleikhúsið bauð nýlega upp á táknmálstúlkun á Dýrunum í Hálsaskógi, og nutu allir sýningarinnar ákaflega vel, jafnt heyrandi sem heyrnarskertir.

Óvitar hafa fengið afar góðar viðtökur, en í þessu verki er hlutunum snúið á hvolf, börnin fæðast stór og minnka með aldrinum. Því leika fullorðnir börn og börn leika fullorðna!