Það er gamall og góður íslenskur siður að líta um öxl við áramót og kikka á hvað maður hafi nú verið að brasa á árinu sem er að líða. Árið 2007 hefur sannarlega verið mjög fjörugt og Kómískt hjá Kómedíuleikhúsinu. Meðal verkefna ársins eru 4 nýjar leiksýningar, Act alone leiklistarhátíðin var haldin í fjórða sinn, tvær hljóðbækur voru gefnar út og Sparikallinn varð til svo eitthvað sé nefnt. Kómedíuleikarinn sérlegur ritari, leikari, leikhússtjóri og ræstitæknir Kómedíu rekur hér annál Kómedíuleikhússins árið 2007. Eða einsog við segjum á Kómísku máli: Annó Kómedí 2007. Gjörið svo vel.

 

Árið hófst með trompi þegar Kómedíuleikhúsið og Litli leikklúbburinn á Ísafirði tóku upp einleikið samstarf í janúar. Verkefnið nefndist Leikur einn og hófst með leiklistarnámskeiði í einleik undir stjórn einleikarans Elfars Loga Hannessonar. Í framhaldi af námskeiði völdu þátttakendur sér síðan einn einleik og hófust þá æfingar á verkinu. Leikirnir voru loks sýndir allir saman undir heitinu Leikur einn á Hótel Ísafirði í febrúar við góðar undirtektir. Einnig voru þeir á dagskrá Act alone. Samstarf atvinnuleikhússins og áhugaleikhússins á Ísafirði heppnaðist í alla staði vel og aldrei að vita nema framhald verði á samvinnu leikhúsanna í framtíðinni.

Í lok janúar frumflutti Kómedía stuttan einleik sem ber það skemmtilega heiti Ég heiti Völundur og ég er vitlaus. Höfundur sögunnar er Hallgrímur Oddsson en leikgerðina gerði Elfar Logi Hannesson og var hann einnig leikari (nema hvað). Frumsýnt var í Grunnskólanum á Ísafirði og var gerður góður rómur af Völundi. Í sýningunni Ég heiti Völundur og ég er vitlaus er unnið með þjóðsagnaarfinn og velt fyrir sér þeirri spurningu hvort maður sé vitlaus ef að maður trúir á álfa, drauga, tröll og aðrar verur. Vinir söguhetjunnar, Völundar, segja að hann sé vitlaus út af þessari trú hans á verurnar áðurnefndu en er það nú alveg víst að hann sé vitlaus? Völundur hefur tekið saman stutt erindi um málefnið og framkvæmir tilraunir í hverjum þjóðsagnaflokki. Að lokum má spyrja sig hver sé vitlaus eða er þetta allt ein hringavitleysa.

Á sumardaginn fyrsta, 19. apríl, frumflutti Kómedía síðan annan einleik. Einnig var þjóðsagnaarfurinn til umfjöllunnar í þessu verki hvorki meira né minna en skrímsli á Íslandi. Leikurinn heitir einfaldlega Skrímsli og Kómedíuleikhúsið fékk til samstarfs Pétur Eggerz Möguleikhússtjóra. En gaman er að geta þess að þessi tvö leikhús hafa átt mjög gott samstarf í gegnum árin. Það má því segja að suðrið og vestrið hafi hér mæst í glímunni við skrímslin. Pétur sá um handrit, leikmynd og leikstjórn en Elfar Logi lék (ha aftur, já hann er eini leikari leikhússins – nú já, svoleiðis). Aðrir listamenn sem komu að sýningunni eru Marsibil G. Kristjánsdóttir sem gerði sérlega flottar skrímslateikningar og leikmuni ásamt þeim Kristjáni Gunnarssyni og Valdimari Elíassyni. Meistari Guðni Franzson gerði hljóðmynd og tónlist og Alda Veiga Sigurðardóttir sá um búningamálin. Einnig komu við sögu í verkinu leikararnir Alda Arnardóttir og Baldvin Halldórsson. Um hvað fjallar svo sýningin Skrímsli. Jú, frá örófi alda hafa skrímsl af ýmsum toga reglulega sést í sjó og vötnum á Íslandi og frásögur af samskiptum þeirra við landsmenn frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar fylla heilu ritsöfnin. En hverjar eru þessar dularfullu verur, hvar er þær helst að finna og hvernig er best að bera kennsl á þær? Þessum spurningum svarar skrímslafræðingurinn Jónatan Þorvaldsson og setur um leið fram óvéfenglegar sannanir fyrir tilvist skrímsla í sjó og vötnum á Íslandi.

Einleikurinn Skrímsli var frumsýndur á sumardaginn fyrsta, 19. apríl, í Baldurshaga á Bíldudal. Ekki var það nú útí hött að frumsýnt var á þeim góða stað því helstu skrímslafræðingar landsins segja að Arnarfjörður sé mesti skrímslafjörður Íslands því þar fyrirfinnist allar tegundir skrímsla. Enda er þar unnið að opnun Skrímslaseturs sem verður vígt í sumar. Skrímsli fór svo á flakk um Vestfirðina og líka til borgarinnar. Skrímsli verður sýnt áfram á nýja árinu.

Næsta stórverkefni Kómedíuleikhússins á árinu var leiklistarhátíðin Act alone sem var nú haldin fjórða árið í röð dagana 27. júní til 1. júlí. Hátíðin í ár var sú allra veglegasta í sögu hátíðarinnar. Á dagskrá voru hvorki fleiri né færri en 17 íslenskir einleikir allt frá Skrímslum til Pílu Pínu. Tveir erlendir gestaleikir voru á Act alone 2007 meistari Ole Brekke frá Danmörku og snillingurinn Toomas Tross frá Eistlandi. Fjölmargt fleira einleikið var boðið uppá má þar nefna leiklistarnámskeið í einleik og brúðuleik undir stjórn Ole og Helgu Arnalds, í Ísafjarðarbíói var sýnd heimildarmyndin Leikur einn eftir Jóhannes Jónsson, fyrirlestur um einleikara, einleikið málþing og sérstök dagskrá um einleikarann og fjöllistakonuna Steingerði Guðmundsdóttur. Dagskráin var þó ekki alveg einleikin því einnig var boðið uppá tvíleik. Act alone var að vanda haldin í Hömrum á Ísafirði en sýningar voru víðar um bæinn og teigðu sig reyndar yfir í Dýrafjörð. Act alone 2007 þótti heppnast mjög vel og er óhætt að segja að hátíðin hafi stimplað sig inní listalífið á Íslandi og sé orðin ein af bestu listahátíðum landsbyggðarinnar.

Þriðja sýning Kómedíuleikhússins á árinu var og takið nú eftir tvíleikurinn Ég bið að heilsa. Einsog glöggir lesendur hafa þegar fattað þá er hér vísað til þjóðskáldsins Jónasar Hallgrímssonar enda var verkið sett upp í tilefni af 200 ára fæðingarafmæli skáldsins. Kómedíuleikarinn tók hér upp samstarf við tónlistarmanninn Þröst Jóhannesson og settu þeir saman verk sem inniheldur ljóð Jónasar sem þeir flytja í leik, tali og tónum. Verkið er um margt merkilegt því Þröstur flutti þar frumsamda tónlist við ljóð Jónasar. Í leiknum Ég bið að heilsa eru flutt mörg af helstu klassíkum skáldsins s.s. Gunnarshólmi, Sáuð þið hana systur mína, Ferðalok og að sjálfsögðu Ég bið að heilsa. Ljóðaleikurinn Ég bið að heilsa var frumsýndur á Hótel Ísafirði í byrjun nóvember, korter fyrir afmæli skáldsins. Þeir félagar hafa í hyggju að halda áfram með Ég bið að heilsa og verður gaman að fylgjast með framhaldinu á nýju frábæru ári.

Ekki var langt á milli frumsýninga í nóvember hjá Kómedíu því um miðjan mánuðinn var fjórði leikur Kómedíuársins frumfluttur. Jólasveinar Grýlusynir nefnist króinn og er eftir þau Elfar Loga og Soffíu Vagnsdóttur. Leikari er óþarfi að nefna það og vera að lengja hér annálinn með því, en Soffía leikstýrði. Fjölmargir aðrir listamenn komu að sýningunni og er gaman að geta þess að allt voru það vestfirskir snillingar nema hvað. Kómedíufrúin Marsibil G. Kristjánsdóttir er mikil listakona og fékk hún það erfiða hlutverk að hanna Grýlusynina. Það eru engar ýkjur að segja að verk hennar er bara snild. Jólasveinarnir eru fjölbreyttir einsog þeir eru margir því þeir eru bæði grímur og brúður. Kómedíufrúin lét ekki þar við sitja heldur hannaði hún einnig leikmyndina sem er mikil listasmíð sannkallaður ævintýrahellir jólasveinanna. Enda fékk hún góðan mann í smíðina með sér sjálfan Kristján Gunnarsson fjöllistamann frá Þingeyri en hann hefur áður unnið með Kómedíuleikhúsinu enda þýðir ekkert annað en leita til meistaranna þegar unnið er með svo viðkvæmt efni sem íslensku jólasveinana. Listakonan Alda Veiga sem einnig hefur starfað með Kómedíu í gegnum árin með góðum árangri sá um að klæða jólasveinana í sín réttu föt. Það er mikl tónlist í leikritinu Jólasveinar Grýlusynir og í það verk var valin maður. Sjálfur Hrólfur Vagnsson sem er fluttur aftur vestur og vonandi á hann eftir að starfa oftar með Kómedíu í framtíðinni. Það var svo ljósameistari Vestfjarða Jóhann Daníel Daníelsson sem lýsti upp ævintýrið. Jólasveinar Grýlusynir er sprellfjörugur leikur um gömlu íslensku jólasveinana og ýmsum spurningum reynt að svara um þessa skrítnu kalla. Hvers vegna er Stúfur minnstur jólasveinanna? Afhverju er Stekkjastaur svona hár til hnésins? Var fjórtándi jólasveinninn til? Eru Bjúgnakrækir og Askasleikir tvíburar? Allt þetta og miklu fleira fá áhorfendur í sýningunni um Grýlusynina að vita og miklu fleira. Því inní ævintýrið þeirra fléttast allt annað ævintýr um nútíma unglingspilt sem er að leita að strokukúnni Búkollu.

Jólasveinar Grýlusynir voru og eru enn þegar þetta er párað sýndir í Tjöruhúsinu á Ísafirði sem varð sannkallað ævintýrahús jólasveinanna.

Kómedíuleikhúsið skellti sér í enn eitt ævintýrið á árinu þegar útgáfa hófst á hljóðbókum. Hugmyndin kemur frá Kómedíufrúnni og að vanda hafði hún rétt fyrir sér því útgáfunni hefur verið afar vel tekið. Í vor gaf Kómedíuleikhúsið út fyrstu hljóðbókina sína Þjóðsögur úr Vesturbyggð og í byrjun desember kom út önnur hljóðbók, Þjóðsögur úr Ísafjarðarbæ. Lesari á hljóðbókunum er…já þið vitið hver, einmitt Kómedíuleikarinn. Hljóðbækurnar fást í verslunum um land allt og einnig á heimasíðu Kómedíu.

Jæja, nú er þessi annáll orðinn alltof langur en samt er nú helling eftir af Kómískum viðburðum ársins. Af öðrum verkefnum má nefna að Kómedíuleikhúsið bætti við sig leikhúsi á árinu. Um er að ræða unglingaleikhópinn Morrann á Ísafirði sem hefur starfað með góðum árangri síðustu árin og heldur betur poppað uppá menningarlífið ekki bara á Vestfjörðum heldur um land allt. Kómedíuleikhúsið sér um listrænt starf Morrans og mun gera það næstu þrjú árin. Kómedía hóf samstarf við Sparisjóð Vestfirðinga með fæðingu persónunnar Sparikallinn sem er sérlegur sparikall sjóðsins góða að vestan og heimsækir reglulega útibú bankans. Kómedíuleikhúsið hóf samstarf við Bókasafnið á Ísafirði með verkefninu Vestfirskur húslestur en yfir vetrartímann er skáld að vestan kynnt og lesið úr verkum viðkomandi penna. Fyrsti húslesturinn var í janúar og svo var lesið mánaðarlega fram í maí. Þráðurinn var svo tekinn upp að nýju í haust og mun standa fram á næsta sumar. Kómedíuleikhúsið stóð fyrir listamannaþingi á Ísafirði í samstarfi við listamenn staðarins í febrúar þar sem púlsinn var tekinn á listinni á Ísó sem er sannarlega í blóma. Heppnaðist þingið vel og er stefnt að öðru skrafi á komandi ári. Tvö leikverk frá fyrri leikárum héldu áfram að gera það gott á árinu. Hér er átt við þau ólíku skötuhjú Dimmalimm og Gísla Súrsson. Saman fóru þau í leikferð í haust um norður- og austurland einnig skruppu þau til Lúxembúrgar saman þar sem þeim var ákaft fagnað. Gísli Súrsson var í miklum ham að vanda alls voru sýndar fjörtíu sýningar á árinu sem þýðir að hann er kominn yfir 150 sýningar í það heila. Gísli skrapp ekki bara til Lúx heldur einnig til Albaníu þar sem leikurinn var sýndur á alþjóðlegu einleikjahátíðinni Albamono í Korce. Til að gera langa sögu stutta þá var sýningin valin besta sýning hátíðarinnar byggð á þjóðlegu efni. Er það í annað sinn sem Gísli Súrsson er verðlaunaður erlendis en áður hefur leikurinn hlotið verðlaun á hátíð í þýskalandi. Ekki má gleyma ljóðaleiknum Aumingja litla ljóðið sem var sýndur á Act alone og einnig á ljóðahátíðinni Glóð á Siglufirði. Kómedíuleikhúsið gerði tvo góða samstarfssamninga á árinu. Fyrst ber að nefna Ísafjarðarbæ sem gerði tvíhliða samning við leikhúsið sem hljóðar uppá eina komma fjórar milljónir á ári. Partur af þeirri upphæð eru ýmis verkefni sem bærinn kaupir árlega af leikhúsinu s.s. leiksýningar og einnig beinn styrkur til leikhússins. Þessi samningur gladdi Kómedíuhjartað mjög og var mikil viðurkenning á starfi og bara tilgangi leikhússins. Samningurinn var gerður til þriggja ára. Góður granni Ísóbæjar, Bolungarvíkurkaupstaður gerði síðan í haust samning við Kómedíu. Hljóðar hann uppá 350 þúsund og er það vegna kaupa á ýmsum sýningum og uppákomum sem leikhúsið flytur í Bolungarvík á samningstímanum. Einnig er gaman að geta þess að Kómedíuleikhúsið fékk eina komma fimm milljón á fjárlögum takk fyrir það og svo styrkti Leiklistarráð Act alone um níu hundruð þúsund, líka takk takk margfalt.

En mest af öllu vill Kómedíuleikhúsið þakka þér lesandi góður fyrir stuðninginn á árinu. Fjölmargir hafa stutt Kómedíuna í gegnum árin sem eru nú orðin tíu kómískár og eitt er víst án ykkar kæru Kómedíuvinir væri sagan ekki jafn Kómísk og hún er. Þið eruð frábær. Kómedíuleikhúsið þakkar öllum fyrir árið sem er að líða margt spennandi verður á Kómedíudagskránni á komandi ári einsog má lesa hér í Pé essinu. Sjáumst í leikhúsinu.

Kómísk kveðja frá Ísó,

Elfar Logi Hannesson

Kómedíuleikhúsið

Pé ess – framundan 2008:

Pétur og Einar (vinnuheiti) sögulegur einleikur eftir Kómedíuleikarann frumsýndur í sumar.

Act alone 2008 Fimmta hátíðin og sú veglegasta verður haldin dagana 2. – 6. júlí vinsamlegast gerið hring um þá daga á dagatalinu ykkar.

Hljóðbækur verða gefnar út áfram ein í vor og önnur í haust.

Jólasveinar Grýlusynir á geisladisk allt leikrtið gefið út á geisla í nóvember.

Grýla (vinnuheiti) nýr jólaeinleikur. Soffía og Kómedíuleikarinn halda áfram samstarfinu og nú er komið á mömmu sveinanna og verður leikurinn frumsýndur fyrir jól.

{mos_fb_discuss:2}