Leikritið norway.today verður frumsýnt í Edinborgarhúsinu á Ísafirði þann 17. janúar nk. en þar er á ferðinni margverðlaunað verk sem vakið hefur athygli og áhuga ungs fólks á undanförnum árum.  Tvær sýningar verða á verkinu, sýning fyrir nemendur Menntaskólans á Ísafirði kl. 10:45 en síðan verður hátíðarsýning fyrir almenning kl. 20.
Þjóðleikhúsið hefur á undanförnum árum lagt sífellt meiri áherslu á leiksýningar sem höfða til ungs fólks en liður í því markmiði er að setja á stofn farandleikhús sem ferðast milli framhaldsskóla landsins. Í fyrra sló sýningin Patrekur 1,5 eftirminnilega í gegn en það verk var frumsýnt í Fjölbrautarskóla Suðurlands en síðan var farið í tæplega mánaðar langa reisu um landið með sýninguna sem síðan var sýnd fyrir fullu húsi á Smíðaverkstæðinu og loks á Stóra sviðinu vegna mikillar aðsóknar.
 
Þjóðleikhúsið gerir leikferðir út á land með sýningar fyrir ungt fólk að reglulegum viðburði í starfi hússins og leggur áherslu á vandaðar uppsetningar fyrir fólk á framhaldsskólaaldri. Sérstakur samstarfsaðili þessa verkefnis er Vodafone sem styrkir leikferðirnar en sýningarnar á landsbyggðinni eru ókeypis fyrir nemendur skólanna. Samstarfssamningur verkefnisins var undirritaður í Þjóðleikhúsinu í dag af Tinnu Gunnlaugsdóttur þjóðleikhússtjóra og Birni Víglundssyni f.h. Vodafone.

Júlía er tvítug. Hún leitar að einhverjum á netinu sem er tilbúinn til þess að fremja með henni sjálfsmorð. Hún kynnist á hinum nítján ára gamla Ágúst á spjallrás og þau ákveða að láta verða af því saman. Hvorugt þeirra hefur þó augljósa ástæðu til að vilja fyrirfara sér. Þau finna einfaldlega ekki neina gilda ástæðu til að lifa. Birg af samlokum og bjór og með myndbandstökuvél í farteskinu leggja þau af stað í langferð upp á himinháa bjargbrún í Noregi þar sem þau ætla að láta verða af því að stökkva…
        
norway.today er grátbroslegt verk um tvær ungar manneskjur í leit að hinu endanlega adrenalín-kikki; dauðanum. Þetta er skemmtilega þverstæðukennt verk um tilgang og tilgangsleysi lífsins, uppfullt af svörtum húmor. Frá því að verkið var frumflutt árið 2000 hefur það verið þýtt á 25 tungumál og sett upp í yfir tvö hundruð mismunandi uppfærslum í Evrópu, Bandaríkjunum og víðar.  Þýðandi verksins er María Kristjánsdóttir.
 
Leikstjóri norway.today er Vigdís Jakobsdóttir og tveir ungir leikarar, Sara Marti Guðmundsdóttir og Þórir Sæmundsson, leika í sýningunni. Sara Marti er nýútskrifuð leikkona frá LHÍ en hefur þegar getið sér gott orð sem söngkona og lék einnig í kvikmyndinni Astrópíu. Þórir Sæmundsson lék hér heima á sínum yngri árum en lærði leiklist í Noregi þar sem hann hefur slegið í gegn bæði á sviði og í kvikmyndum. Um myndvinnslu sér Halldór Snær Bjarnason ásamt Högna Sigurþórsyni sem einnig hannar sviðsmyndina. Búningaumsjón annast Leila Arge en ljósameistari er Benedikt Axelsson.

{mos_fb_discuss:2}