Einleikur Eddu Björgvinsdóttur , sem frumsýndur var í mars árið 2005, hefur verið sýndur 130 sinnum fyrir fullu húsi og við fádæma undirtektir áhorfenda um allt land, en rúmlega 20 þúsund manns hafa nú þegar séð sýninguna. Það er því óhætt að segja að sýningin Alveg brilljant skilnaður er einhver sú vinsælasta sem sýnd hefur verið undanfarin ár.
 
Borgarleikhúsið hefur ákveðið, vegna fjölda áskoranna, að bjóða upp á 4 sýningar á þessum drepfyndna einleik nú í haust og eru allra síðustu forvöð að berja augum einleikinn frábæra.
 
Leikritið fjallar um miðaldra konu, Ástríði Jónu Kjartansdóttur sem lendir í því að maðurinn hennar finnur sér nýja konu “nýfermda spænska stelpudruslu” eins og Ástríður segir sjálf. Upp frá því hefst afar erfið en drepfyndin þroskasaga vesalings Ástríðar, sem sveiflast á milli sorgar og reiði, hefnigirni og harmagráts.
 
 Fyrsta sýningin af 4 verður á Nýja sviði Borgarleikhússins fimmtudaginn 26.október.