Föstudaginn 27. október frumsýnir Þjóðleikhúsið leikritið Stórfengleg! eftir Peter Quilter í leikstjórn Ágústu Skúladóttur.
Stórfengleg! er glænýr gamanleikur um Florence Foster Jenkins, “verstu söngkonu allra tíma”. Jenkins varð víðfræg fyrir hljómplötur sínar og tónleika sem hún hélt í New York á 4. og 5. áratugnum. Hún þótti heillandi persónuleiki, var gædd óbilandi sjálfstrausti, en hafði þann galla einan sem söngkona að hún hélt ekki lagi. Aðdáendahópur Florence stækkaði þó ört og hápunkturinn á ferlinum var tónleikar fyrir fullu húsi í Carnegie Hall. Stórfengleg! er grátbroslegur gamanleikur, sem getur í senn knúið áhorfendur til óvæginnar sjálfsskoðunar, og látið þá veltast um af hlátri.
Peter Quilter hóf feril sinn sem leikari í sjónvarpi en vakti fyrst athygli sem leikskáld árið 1998 með leikritinu Respecting your Piers og söngleik byggðum á verki Oscars Wildes, The Canterville Ghost. Síðan þá hafa leikrit hans verið þýdd yfir á mörg tungumál og leikin í á annan tug landa víða um heim. Verk hans hafa meðal annars verð sýnd í Sydney, Amsterdam, Helsinki, Prag, Höfðaborg og Toronto við miklar vinsældir. Tvö leikverk eftir hann hafa verið sýnd á West End í London, poppsöngleikurinn BoyBand árið 1999, sem einnig var sýndur á leikför um Evrópu, og Stórfengleg! eða Glorious! árið 2005.
Stórfengleg! var sýnt í Duchess leikhúsinu í hálft ár, og sýningar urðu yfir 200. Verkið var tilnefnt til Laurence Olivier verðlaunanna sem besti nýi gamanleikur ársins. Sama ár var leikrit Quilters með söngvum um Judy Garland, End of the Rainbow, frumflutt í Óperuhúsinu í Sydney. Verkið var sýnt á Edinborgarhátíðinni 2006 og verður sýnt á West End vorið 2007. Peter Quilter er búsettur á Kanaríeyjum en er breskur að uppruna. Stórfengleg! er fyrsta leikrit Peters Quilters sem sýnt er á Íslandi. Ingunn Ásdísardóttir þýddi.
Ólafía Hrönn Jónsdóttir fer með hlutverk söngkonunnar Florence Foster Jenkins. Unnusta hennar, St.Clair leikur Örn Árnason en Stefán Hallur Stefánsson er undirleikarinn Cosme McMoon. Edda Arnljótsdóttir er vinkonan Dorothy en aðrir leikarar eru Dóra Jóhannsdóttir og Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir.
Stefán Hallur Stefánsson og Dóra Jóhannsdóttir eru að stíga sín fyrstu skref á sviði í Þjóðleikhúsinu að loknu leiklistarnámi.
Jóhann G. Jóhannsson stjórnar tónlist og Þórunn Sigþórsdóttir er aðstoðarleikstjóri. Frosti Friðriksson gerði leikmynd en Þórunn Elísabet Sveinsdóttir búninga og Björn Bergsteinn Guðmundsson hannaði lýsingu.
Sigrún Hjálmtýsdóttir veitti ómetanlega aðstoð við árangurslausa söngþjálfun stórstjörnunnar.