Sunnudaginn 29. maí kl. 16 frumsýnir Hugleikur sýninguna Gamli góði Villi – Sjeikspír í höndum Hugleiks. Höfundar félagsins hafa lagst yfir verk skáldsins og stolið þaðan öllu sem hnýsilegt má teljast en skrumskælt annað af vel þekktu smekkleysi sínu, og jafnvel samið frá grunni ýmislegt með misbeinar vísanir í verkin. Leikstjórar og leikendur hafa síðan bætt um betur með sínum uppátækjum og óhætt er að fullyrða sjaldan hefur sá gamli komist í hann krappari.

 

William Shakespeare er um margt dæmigerður Hugleikshöfundur. Hann skrifaði fyrir sinn eigin leikhóp, sótti sér efni hingað og þangað, í eldri leikrit eða skáldsögur, sneri upp á viðfangsefni sín á alla enda og kanta og var einungis upptekinn af því að hreyfa við áhorfendum sínum. Honum til liðsauka koma að þessu sinni Árni Friðriksson, Árni Hjartarson, Hulda B. Hákonardóttir, James Thurber, Sigríður Lára Sigurjónsdóttir, Sigurður H. Pálsson, Þorgeir Tryggvason og Þórarinn Stefánsson.

Tvær sýningar verða:

Sunnudaginn 29. maí kl. 16:00
Mánudaginn 30. maí kl. 20:00

Miðapantanir á Hugleiksvefnum

{mos_fb_discuss:2}