Nú um helgina sýna Skýjasmiðjan og Gaflaraleikhúsið síðustu tvær sýningarnar á hinu vinsæla verki Hjartaspaðar í Gaflaraleikhúsinu í Hafnarfirði. Sýningin hlaut lofsamlega dóma og var tilnefnd til tveggja grímuverðlauna árið 2013. Sýningarnar eru laugardaginn 23. og sunnudaginn 24. nóvember og hefjast kl. 20. Leikstjóri er Ágústa Skúladóttir.

Í þessu verki eru farnar nýjar slóðir í leiklist á Íslandi en þetta er fyrsta verkið sem leikið er með heilgrímum án orða í sýningu í fullri lengd. Verkið er drepfyndin en ljúfsár kómedía sem fjallar um stórundarleg uppátæki eldri borgaranna á dvalarheimilinu Grafarbakka sem sanna svo rækilega að lífið er ekki búið eftir áttrætt.

Grímur og Hannes hafa verið félagar á dvalarheimilinu um nokkra hríð og dagleg rútína þeirra er fyrir löngu komin í fastar skorður. Þegar Gréta flytur inn umturnast líf þeirra og fyrr en varir hefjast óborganleg uppátæki til að lífga upp á tilveruna og drepa leiðindin þar sem öllum brögðum er beitt.

Kári Viðarsson, leikari sem meðal annars er þekktur fyrir uppbyggingu sína á Frystiklefanum á Rifi á Snæfellsnesi bætist nú við hópinn og tekur við hlutverki hjúkrunarkonu af Álfrúnu Gísladóttur sem farin er til náms í Bretlandi.

Ágústa Skúladóttir hefur sett mark sitt á íslenskt leikhúslíf með uppsetningum sínum á Grímusýningunum Klaufum og kóngsdætrum og Bólu Hjálmari, Dýrunum í Hálsaskógi, óperunni Töfraflautunni eftir Mozart sem var opnunarsýning Íslensku Óperunnar í Hörpu og nú síðast brúðusýningunni Alladin á Brúðuloftinu í Þjóðleikhúsinu. Hún hefur í liði með sér leikarana Aldísi Davíðsdóttur, Orra Huginn Ágústsson og Stefán Benedikt Vilhelmsson ásamt ljósahönnuðinum Sune Joenssen sem fékk Grímutilnefningu á síðasta ári fyrir bestu lýsinguna í Ævintýrum Múnkhásens.