Í lok júlímánaðar heldur hópur frá leikfélaginu Hugleik og Leikfélagi Kópavogs á leiklistarhátíð alþjóðlega áhugaleikhússambandsins IATA í Masan-borg í Suður-Kóreu. Þar verður sýnt leikritið Memento mori eftir Hrefnu Friðriksdóttur í leikstjórn Ágústu Skúladóttur.

Laugardaginn 7. og sunnudaginn 8. júlí verða haldnar opnar æfingar til fjáröflunar fyrir ferðina. Þetta verður í fyrsta sinn í tvö ár sem færi gefst að sjá þessa rómuðu leiksýningu á Íslandi – og ef til vill það síðasta. Sýnt verður í Möguleikhúsinu við Hlemm kl. 20.00 bæði kvöldin. Almennt miðaverð er 1500 kr., en frjáls framlög eru vel þegin. Miðapantanir eru á www.hugleikur.is.

mementofrett.jpgÍ Memento mori er skyggnst inn í heim fólks sem nýtur þeirrar blessunar – eða er það bölvun? – að geta ekki dáið. Þessar ódauðlegu verur velta fyrir sér lífinu, dauðanum og ódauðleikanum, og brugðið er upp svipmyndum af fortíð þeirra. Þegar á líður koma tengsl þeirra betur í ljós og þar kemur að þær hljóta að taka afstöðu til fortíðarinnar og ódauðleikans.

Memento mori var frumsýnt í nóvember 2004. Sýningin var valin sýning hátíðarinnar á hátíðinni "Leikum núna!" á Akureyri í júní 2005, og var í kjölfarið valin sem fulltrúi Íslands á hátíð norður-evrópska áhugaleikhússambandsins NEATA í Þórshöfn í Færeyjum sumarið 2006. Þar hlaut sýningin frábærar undirtektir áhorfenda og einróma lof gagnrýnenda.

Í framhaldinu var sýningin valin á hátíð alþjóðasambandsins í Suður-Kóreu, en það þykir mikill heiður. Þetta mun vera í þriðja skipti sem íslenskum leikhópi er boðið á slíka hátíð, en þær hafa verið haldnar annað hvert ár frá því um miðja síðustu öld.

Nánari upplýsingar veita Sigurður H. Pálsson í síma 8200010, Hrefna Friðriksdóttir í síma 6952504 og Ágústa Skúladóttir í síma 8203510.

Úr gagnrýni um sýninguna:
„… fjöldi skemmtilegra hugmynda … Leikhópurinn er samstilltur og það er gleðilegt hve marga góða leikara þessi tvö áhugaleikfélög eiga í sínum röðum. … Gleðilegra þó hve markmiðin eru sett hátt og til alls vandað í einfaldleikanum." María Kristjánsdóttir, Morgunblaðið

„…fjórar stjörnur … Maður hlær og á næsta augnabliki blika tár í auga. … stórkostlegt að sjá hvernig leikstjórinn nýtir sér styrkleika hvers einstaks leikara til hagsbóta fyrir sýninguna. Hver einasti leikari skapaði sannferðuga persónu sem maður sér ljóslifandi fyrir sér í kvöl hinnar eilífu tilveru. … Þetta er sýning sem allir verða að sjá!!!" Lárus Vilhjálmsson, leiklist.is

„Gott dæmi um vel unna og frumlega áhugasýningu sem vakti okkur til umhugsunar um eilífðarmálin, dauðann og mörkin milli lífs og dauða." Dómnefnd Þjóðleikhússins,

„…þegar sýning er góð, heillar mann á einhvern hátt, þá gleðst maður í hjarta sínu og verður ef til vill aldrei samur maður. Slíka sýningu sá ég í gær. … Frá öllum sjónarhornum er þetta glæsilegt verk… Ef ég fjallaði meira um þessa sýningu myndi ég missa mig út í hástemmdu lýsingarorðin og ekki ráða við tilfinningar mínar. Þetta leikhús heillaði mig og gaf mér nýja sýn. Til hamingju." Þráinn Karlsson, Gagnrýnifundur á Leikum núna!

„Íslendski leikurin "Memento mori" var á sera høgum støði. (Íslenska sýningin Memento mori var í sérlega háum gæðaflokki.)" Hilmar Joensen, Sosialurinn 8/8 2006

{mos_fb_discuss:2}