Nú er hver að verða síðastur til að sjá þessa stórskemmtilegu uppfærslu Leikfélags Selfoss á Sólarferð eftir Guðmund Steinsson því nú er komið að allra síðustu sýningu! Hún verður sýnd miðvikudaginn 4. apríl kl. 20 í Litla leikhúsinu á Selfossi. Leikstjóri er Rúnar Guðbrandsson.

Verkið hefur fengið frábærar viðtökur og hefur verið uppselt á hverja sýninguna á fætur annarri. Leikritið gerist á miðjum áttunda áratugnum og fjallar um ferð nokkurra íslenskra hjóna til Costa del Sol. Þau ætla sannarlega að njóta sólarinnar, enda er hún ástæðan fyrir ferðum hins fölbleika landa til útlanda, sem og frelsisins sem fylgir því að vera í fríi fjarri skyldum heimilisins.

Árni Hjartarson, gagnrýnandi, leiklist.is: „Ég sá Sólarferð á fjölum Þjóðleikhússins fyrir fáum árum, ágæta sýningu og vel leikna. Þessi sýning stendur henni ekki að baki og verður líklega eftirminnilegri þegar fram líða stundir“.

Stefán Geirsson, Áveitunni: „Leikfélag Selfoss hefur í gegnum tíðina lært að nýta plássið vel í litla leikhúsinu sínu og það gera þau svo sannarlega í þessari uppsetningu. Leikmyndin er sniðuglega hönnuð og nær með leikmunum og búningum að færa áhorfandann á sannfærandi hátt 35 ár aftur í tímann.“

Bjarni Harðarson, Sunnlenska: „Leikfélag Selfoss fer afar vel með stykkið og tekst að gera hin leiðinlegustu atvik sólarlandaferðar að sprenghlægilegum. Það er þannig ákveðið ris í sýningunni þegar tvenn hjón sitja þegjandi á rúmbrík á hóteli og horfa sljóum augum út á spænskan sjó en salurinn tísti af hlátri.“

Miðaverð er 2000 krónur, fyrir hópa 6 manna og stærri, 1700 krónur miðinn.

Miðapantanir í síma 482-2787 eftir kl 16 á daginn og á leikfelagselfoss@gmail.com

{mos_fb_discuss:2}