Leikfélag Bolungarvíkur rumskaði á vordögum síðastliðnum eftir 17 ára fastasvefn. Ráðist var í uppsetningu á verkinu „Að eilífu,“ eftir Árna Ibsen, eftir nýjárið og var frumsýning síðastliðinn laugardag. Leikstjóri verksins er Lilja Nótt Þórarinsdóttir, leikkona, en þetta er hennar fyrsta leikstjórnarverkefni. Hún réðst ekki á garðinn þar sem hann var lægstur í þessari fyrstu uppsetningu sinni því að meðal leikendanna sem eru hátt í 20, voru einungis 3 – 4 sem höfðu nokkuð rykfallna reynslu í sviðsleik.

Góður rómur var gerður að frumsýningunni og þótti fólkinu vestra þessi uppsetning takast með eindæmum vel, auk þess sem verið var að bjóða upp á nokkra nýbreytni þar sem uppsetningin flokkast ekki beint undir „hefðbundna“ leiksýningu eins og Bolvíkingar muna þær. Má nefna að sýningin fer fram í öllum rýmum hins nýendurgerða og glæsilega Félagsheimilis Bolungarvíkur og byrjar leikritið strax í anddyri hússins. Til að þetta gegni upp þurfti að útvega snúanlega skrifstofustóla á hjólum undir hvern og einasta leikhúsgestarass. Það gekk ekki snurðulaust fyrir sig en hafðist að lokum eins og allt annað.

Leikfélag Bolungarvíkur er komið á skrið aftur og mun vonandi ekki blunda um ókomna tíð.

{mos_fb_discuss:2}