Hið ódauðlega meistaraverk, óperan La Bohème eftir Puccini, verður frumsýnd föstudaginn 16. mars kl. 20 í Eldborg í Hörpu. Hér er um að ræða aðra sýningu Íslensku óperunnar í hinum nýju húsakynnum, en skemmst er að minnast fyrstu uppsetningarinnar, Töfraflautunnar, sem 13.000 manns sáu síðastliðið haust. Nú er komið að meistaraverki Puccini um bóhemana í París, umfangsmikill og fjölmennri sýningu sem krefst mikils af öllum þeim listrænu kröftum sem að henni standa. Þessi hrífandi ópera þykir ein fegursta smíð tónbókmenntanna og er hún jafnan á fjölum helstu óperuhúsa heims.

Í La Bohème segir frá hópi listamanna í París í byrjun síðustu aldar, sem búa við þröngan kost og sára fátækt. Sjónum er beint að ástarsambandi saumakonunnar Mimì og skáldsins Rodolfo, sem fella hugi saman, en við fylgjumst einnig með vinum þeirra, heimspekingnum Colline, tónlistarmanninum Schaunard og kvikmyndargerðarmanninum Marcello, að ógleymdri hinni skrautlegu kærustu hins síðastnefnda, söngkonunni Musettu. Mimì heyr þó baráttu við hinn miskunnarlausa vágest tæringu, sem að lokum dregur hana til dauða í örmum Rodolfo.

Að uppfærslunni standa Daníel Bjarnason sem hljómsveitarstjóri, Jamie Hayes sem leikstjóri og Will Bowen sem leikmyndahönnuður, en þeir Jamie og Will unnu einnig saman að uppsetningum Íslensku óperunnar á Macbeth Verdis og Toscu Puccinis á síðastliðnum áratug, sem þóttu afar áhrifamiklar og glæsilegar sýningar. Búninga hannar Filippía I. Elísdóttir, og lýsingu hannar Björn Bergsteinn Guðmundsson, auk Henriks Linnet, sem sér um myndvinnslu, og Stellu Sigurgeirsdóttur – sem á heiðurinn að þeim fjölmörgu leikmunum sem prýða sýninguna.

Í aðalhlutverkum eru Hulda Björk Garðarsdóttir sem Mimì, og Gissur Páll Gissurarson sem Rodolfo, en Þóra Einarsdóttir og Garðar Thór Cortes syngja einnig hlutverkin á tveimur sýningum. Þá syngur Ágúst Ólafsson hlutverk Marcello, Jóhann Smári Sævarsson hlutverk Colline, Bergþór Pálsson syngur hlutverk Benoît og Alcindoro, Hrólfur Sæmundsson hlutverk Schaunard og Herdís Anna Jónasdóttir syngur hlutverk Musettu, og er þetta frumraun tveggja hinna síðastnefndu í Íslensku óperunni. Þá syngur Kór Íslensku óperunnar í sýningunni, auk þess sem 32 manna barnakór tekur þátt í uppfærslunni, sem og lúðrasveit skipuð meðlimum úr Skólahljómsveit Kópavogs, meðlimir úr Sirkus Íslands og hundurinn Drakúla á stutta innkomu. Hljómsveit Íslensku óperunnar leikur og er konsertmeistari Sigrún Eðvaldsdóttir. Yfir 200 manns koma að sviðssetningu Íslensku óperunnar á þessu þekkta verki nú, og eru yfir 160 manns á sviði og í gryfju þegar mest lætur!

Alls verða sex sýningar á La Bohème – frumsýning verður næstkomandi föstudag, 16. mars, og síðan verða sýningar laugardaginn 17. mars, laugardaginn 31. mars, sunnudaginn 1. apríl, laugardaginn 14. apríl og föstudaginn 20. apríl.

{mos_fb_discuss:2}