Sviðslistahátíðin UNGI fyrir unga áhorfendur verður haldin dagana 20. til 23. apríl. Hátíðin er haldin í fjórða sinn af ASSITEJ á Íslandi, sem eru samtök um leikhús fyrir unga áhorfendur, en skartar nafninu UNGA í fyrsta sinn í ár.

UNGI fer fram víðsvegar í Reykjavík en höfuðstöðvar hátíðarinnar verða í Tjarnarbíói. Þar verða skemmtilegar sýningar dagana 21. og 23. apríl og má með sanni segja að öllum landsmönnum sé boðið í leikhús því aðgangur er ókeypis á viðburði UNGA. Hið eina sem þarf að gera er að mæta tímanlega á sýningarstað og tryggja sér miða, sem afhentir verða klukkustund fyrir sýningartíma.

Dagskráin í Tjarnarbíói verður með eindæmum fjölbreytt og fyrir allan aldur. Þar á meðal eru sýningarnar Vera og vatnið, Trashedy og Kúrudagur. Vera og vatnið er ný danssýning hópsins Bíbí og blaka fyrir tveggja til fimm ára gömul börn. Leikhúsupplifunin Kúrudagur er fyrir fjögurra til átján mánaða. Það er ekki oft sem leiksýningar eru í boði fyrir þennan aldur en í Kúrudegi er farið inn í heim með skemmtilegum brúðum, leikjum og frásögn. Trashedy er eftir framsækinn leikhóp frá Þýskalandi og er fyrir tíu ára og eldri. Trashedy, sem fer fram á íslensku og ensku, blandar saman dansi, teiknimyndum, hljóðbrellum og hárbeittum húmor í sýningu sinni sem fær áhorfendur til þess að hugsa um neysluvenjur og umhverfisvernd.

Lokahátíð UNGA fer fram í Tjarnarbíói laugardaginn 23. apríl kl. 16. Þar kíkja þekktustu persónur leikhópsins Lottu á svið og í kjölfarið hefst leikhúsball með hljómsveitinni Sunnyside Road sem spilar þekkt lög úr leiksýningum. Fólk er hvatt til að mæta í búningum og öll fjölskyldan er velkomin, líkt og á alla viðburði sviðslistahátíðarinnar UNGA.

Samstarfsaðilar UNGA eru Barnamenningarhátíð, Tjarnarbíó, Þjóðleikhúsið, Borgarleikhúsið, Listaháskóli Íslands og Norræna húsið.

Allar frekari upplýsingar um dagskrána má finna á heimasíðu ASSITEJ á Íslandi á assitej.is.