Á rúmsjó eftir Slawomir Mrozek
Leikfélag Kópavogs
Leikstjóri: Örn Alexandersson
Lárus Vilhjálmsson rýnir sýningu
Ég skrapp í gær í litla leikhúsið hjá Leikfélagi Kópavogs til að sjá verk pólska leikskáldsins Slawomir Mrozek, Á rúmsjó. Það var við hæfi að aka í gegnum óreiðu íbúðarhúsa og verslunarmolla í Smárahverfinu sem minna helst á absúrd verk Picassos til að sjá eitt af verkum evrópska absúrdismans sem skoðar á skemmtilegan hátt stéttaskiptingu og hugmyndir um stjórnskipulag. Á rúmsjó hefur verið vinsælt verkefni hjá áhugaleikhópum og ég man t.a.m. eftir uppsetningu leikdeildar Skallagríms í Borgarnesi árið 1981 og leikhóps frá Lettlandi á Leiklistarhátíð BÍL á Akureyri árið 2000 en þær voru eins ólíkar og svart og hvítt. Önnur leikin af miklu raunsæi í sundlauginni í Borgarnesi og hin afar stílisseruð á sviðinu í Samkomuhúsinu. Sýning þeirra Kópavogara fer beggja blands.
Verkið fjallar um 3 menn, þann feita, þann miðlungs og þann mjóa sem eru skipreka út á sjó. Maturinn er búinn og ekkert ætt eftir nema …. og það þarf að taka ákvörðun hver fer fyrstur. Á að taka þann sem er minnst virði, kjósa um hver verði étinn eða að einhver bjóði sig fram sem sjálfboðaliða. Sá feiti fer mikinn og lofar, hótar og svindlar á meðan sá mjói kallar á réttlæti og byltingu. Sá miðlungs reynir að koma sér í mjúkinn hjá báðum. Og pósturinn og þjónninn koma svo eins og skrattinn úr sauðaleggnum. Það er nokkuð ljóst að verk Mrozeks er tákn fyrir samfélagið, þar sem hástéttin, millistéttin og lágstéttin berjast um yfirráð og reyna að sammælast um leiðir til þess með góðu eða illu. Pósturinn og þjónninn tákna líklegast nýja hugmyndastrauma sem hjálpa til eða ekki.
Leikfélag Kópavogs hefur á að skipa mörgum ágætis leikurum og þau vinna nokkuð vel úr hlutverkum sínum. Stefán Bjarnason er ábúðarmikill sem sá feiti og nær ágætlega að lýsa hroka og frekju yfirstéttarinnar. Framsögnin hjá honum og hinum leikurunum átti þó til að fara úr skorðum í hröðustu senunum. Guðlaug Björk Eiríksdóttir var fyndin og smeðjuleg sem sá miðlungs og náði vel millistéttinni sem reynir að koma sér mjúkinn hjá öllum og Guðný Hrönn Sigmundsdóttir náði vel utanum örvæntingu og um leið byltingarmóð þess mjóa (lágstéttarinnar). Þeir Helgi Davíðsson og Haukur Ingimarsson fóru vel með sínar innkomur.
Sviðssetningin hjá leikstjóranum Erni Alexanderssyni var stílfærð að hluta til í anda absúrdismans og var það helst áberandi í innkomum póstberans og þjónsins. Leikmyndin eða fley þeirra þremenninga var þó að mínum dómi einum of natúralískt og yfirþyrmandi og setti of raunverulegan blæ og staðfæringu á verkið. Eins náði ég ekki tilgangi hermannabúninganna. Farið var heldur bratt í aðalþema verksins um fæðuskortinn fannst mér en þar má kannski kenna Mrozek um. Verkið rann þó vel með góðu tempói og fyndnum atriðum.
Maður fór því sáttur heim og ég hvet alla til að kynna sér þetta skemmtilega absúrd verk hjá Leikfélagi Kópavogs. Þrjár stjörnur.
Lárus Vilhjálmsson